Framkvæmdum við lagningu ljósleiðara til Mjóafjarðar er lokið og tengingar komnar í hús á svæðinu. Byggðin í Mjóafirði er seinasti byggðakjarninn sem tengdur er við ljósleiðarakerfi landsins.
Þetta kemur fram á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Þá segir að allar byggðir landsins hafi því aðgang að tryggu fjarskipta- og netsambandi með tilheyrandi þjónustu og öryggi. Heimafólk fagnaði þessum tímamótum við sérstaka athöfn á Sólbrekku í Mjóafirði. „Þar flutti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarp í tilefni dagsins og opnaði fyrir ljósleiðaratenginguna með táknrænum hætti,“ segir á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Samkvæmt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hefur ljósleiðaravæðing í dreifbýli gengið mjög vel á síðustu árum með verkefninu Ísland ljóstengt, sem Fjarskiptasjóður hefur umsjón með. „Með styrkjum til sveitarfélaga hefur verið unnið að því sleitulaust frá árið 2016 að tengja ljósleiðara í allar byggðir og sveitabýli landsins.“
Verkefnið í Mjóafirði var unnið í samstarfi Fjarskiptasjóðs, Neyðarlínunnar, Rarik, Mílu, Fjarðarbyggðar og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Ljósleiðari og rafstrengur var lagður um 17 kílómetra leið og flest hús hafa síðan verið tengd við ljós. Ljósleiðarinn leysir af hólmi fjallastöð fjarskipta og gamla loftlínu rafmagns. Unnið hefur verið markvisst að þessum áfanga frá árinu 2014 þegar loftlína rafmagns slitnaði efst í Austdal í 1000 m hæð. Frágangur á yfirborði klárast næsta sumar, samkvæmt ráðuneytinu.
„Á næsta ári er stefnt að því að leggja ljósleiðara frá Hánefsstöðum í símstöð í Seyðisfirði í samvinnu við Rarik. Næst á eftir verður unnið að því að hringtengja Neskaupstað og Eskifjörð. Byggðakjarnarnir tveir eru eingöngu tengdir frá Reyðarfirði en með hringtengingu er fjarskiptaöryggi tryggt til mikilla muna,“ segir á vef ráðuneytisins.
Fjarskiptasjóður og Neyðarlínan ohf. gerðu fyrr á árinu samkomulag um allt að 70 milljóna króna framlag sjóðsins til verkefna sem miða að uppbyggingu fjarskiptainnviða utan markaðssvæða. Lagning ljósleiðara til Mjóafjarðar og hringtenging byggðarlaga á svæðinu falla undir þetta samkomulag en einnig verkefnið að leggja ljósleiðara yfir Kjöl frá Reykholti í Skagafjörð.
Samstarf fjarskiptasjóðs og Neyðarlínu um lagningu ljósleiðara hefur aukist síðustu ár, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu, en markmiðið er að bæta farsímasamband á þjóðvegum, fjölförnum ferðamannastöðum, rýmingarsvæðum við eldstöðvar og á hafi úti.