Sölu farmiða hjá lággjaldaflugfélaginu Play hefur verið frestað en upphaflega ætlaði félagið að byrja að selja miða í nóvember.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu þeirra í dag.
„Þar sem við erum sprotafyrirtæki þá geta hlutirnir tekið aðeins lengri tíma en áætlað er, þar sem það þarf að ganga frá ýmsum hlutum,“ segir í færslunni.
Samkvæmt Play þarf fólk þó ekki að hafa áhyggjur, „við erum að vinna hörðum höndum að því að ná að byrja að selja miða eins fljótt og hægt er og við getum ekki beðið eftir að deila með ykkur áætlunum okkar.“
PLAY tickets As a new airline on the market, we are very thankful for the great reception. We at PLAY cannot wait to...
Posted by PLAY on Saturday, November 30, 2019
Kjarninn greindi frá því í byrjun nóvember að lágfargjaldaflugfélagið myndi byrja að selja flugferðir strax og flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu fyrir starfsemi þess yrði komin í hús. Vinna við öflun þess hefði staðið yfir frá því í júní og væri nánast lokið. Leyfið yrði gefið út þegar Play hefði lokið hlutafjármögnun sinni.
Play hafði þegar tryggt sér 40 milljón evra, um 5,5 milljarða króna, lánsfjármögnun frá breska fjárfestingarsjóðnum Athene Capital, sem hefur á móti kauprétt á tíu prósent hlut í flugfélaginu. Sú fjármögnun er stækkanleg upp í 80 milljónir evra, um ellefu milljarða króna, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. En á þó eftir að fjármagna 12 milljónir evra, tæplega 1,7 milljarða króna, í eigin fé fyrir Play og Íslensk verðbréf hafa gert einkasölusamning við Play um að tryggja það fjármagn. Þeir sem leggja það til munu eignast 50 prósent í Play á móti Neo ehf., félagi lykilstjórnenda þess. Hlutur beggja mun þynnast niður í 45 prósent ef Athene Capital ákveður að nýta kauprétt sinn.