Al Jazeera hefur nú birt umfjöllun sína um Samherjamálið og meinta mútuþegn og spillingu í Namibíu. Í henni rekur fjölmiðillinn atburðarásina og talar meðal annars við Jóhannes Stefánsson, uppljóstrara og fyrrverandi framkvæmdastjóra Samherja í Namibíu.
Í umfjölluninni má sjá rannsóknarblaðamann fara á fund háttsettra namibíska embættismanna til þess að kaupa fiskveiðikvóta í Namibíu en það átti að gerast í samstarfi við namibísku útgerðina Omualu. Blaðamaðurinn þóttist vera kínverskur fjárfestir en Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, krafðist 200 þúsund dala framlags frá honum handa SWAPO-flokknum vegna viðskiptanna. Esau þáði jafnframt iPhone snjallsíma frá blaðamanni Al Jazeera.
Forstjóri Omualu, Sacky Kadhila, átti að leiðbeina fjárfestinum til þess að koma peningunum hreinum til SWAPO-flokksins undir því yfirskini að um erlenda fjárfestingu í fasteignum væri að ræða.
Fjárframlögin áttu jafnframt að fara í gegnum bankareikning Sisa Namandje, sem er háttsettur í SWAPO-flokknum, en hann hefur verið lögmaður allra namibískra forseta frá því að Namibía varð sjálfstætt ríki árið 1990.
Hægt er að sjá umfjöllun Al Jazeera hér fyrir neðan.