Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og þrír aðrir hafa verið ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu. Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag.
Í fréttinni kemur jafnframt fram að þeir sem komu fyrir dómara í dag hafi auk Shanghala og Eseu verið James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor í síðustu viku, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að þeir hefðu dregið til baka beiðni sína um lausn úr haldi gegn tryggingu og verða þeir því áfram í gæsluvarðhaldi til 20. febrúar næstkomandi.
Í frétt RÚV um málið segir að Esau sé ákærður fyrir að hafa misbeitt valdi sínu sem sjávarútvegsráðherra á árunum 2014 til 2019. Shangala, James Hatuikulipi, Fitty Hatuikulipi og Gustavo sé gert að hafa aðstoðað Esau við að misbeita valdi sínu og hagnast persónulega.
„Esau, Shanghala, Hatuikulipi-frændurnir og Gustavo eru ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur frá Mermaria Seafood Namibia og Esja Seafood á árunum 2014 til 2019. Þeir eru einnig ákærðir fyrir skattsvik og að hafa blekkt namibísku ríkisstjórnina,“ segir í frétt RÚV. Þá séu sexmenningarnir ákærðir fyrir peningaþvætti.