Petter Tusvik, sjóðsstjóri norska fjármálafyrirtækisins Alfred Berg, telur að virði bréfa í DNB haldi áfram að lækka. Tusvik ætlar því að selja niður eignarhlut Alfred Berg í DNB. Frá þessu er greint í frétt norska dagblaðsins Dagens Næringsliv (DN).
Hlutabréf í norska bankanum DNB lækkuðu um 6,4 prósent á föstudaginn eftir að efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar greindi frá því að hafin væri rannsókn á bankanum í kjölfar uppljóstrana Stundarinnar og Kveiks, í samvinnu við Wikileaks og Al Jazeera, á mútugreiðslum Samherja og spillingu tengdri makrílveiðum fyrirtækisins við strendur Namibíu, auk hugsanlegs peningaþvættis í gegnum bankann.
Haft er eftir Tusvik í umfjöllun DN að fregnir af Samherjamálinu muni halda áfram og spáir hann því að fjárfestar muni leita annað.
Peningaþvættishneykslið hjá norrænu bönkunum Danske bank og Swedbank leiddi til mikillar verðlækkunar hjá bönkunum, um annars vegar 31 prósent og 41 prósent á síðastliðnum ári. Á sama tímbili jókst virði bréfa hjá DNB um 8,5 prósent.
Formleg rannsókn hafin
Fram kom í fréttum í síðustu viku að efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar hefði hafið formlega rannsókn á norska bankanum DNB vegna umfjöllunar fjölmiðla um Samherjaskjölin. Í yfirlýsingunni var jafnframt haft eftir starfandi forstjóra að markmið rannsóknarinnar væri að finna út hvað hefði gerst og hvort það varðaði við hegningarlög. „Rannsóknin er á frumstigi og við munum ekki veita frekari upplýsingar um málið.“
Í yfirlýsingu sem birtist á vef efnahagsbrotadeildarinnar kom fram að eðli málsins samkvæmt yrði haft samstarf við yfirvöld í öðrum löndum. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfesti í samtali við RÚV að norska efnahagsbrotadeildin hefði þegar haft samband við embættið.
Í yfirlýsingunni var jafnframt haft eftir starfandi forstjóra að markmið rannsóknarinnar væri að finna út hvað hefði gerst og hvort það varðaði við hegningarlög. „Rannsóknin er á frumstigi og við munum ekki veita frekari upplýsingar um málið.“