Hagnaður í sjávarútvegi jókst töluvert í fyrra þrátt fyrir að veiðigjöld hafi aldrei verið hærri. Hreinn hagnaður (EBT) í sjávarútvegi nam 26,9 milljörðum króna í fyrra, samkvæmt árgreiðsluaðferð. Hagnaðurinn nam 12,2 prósentum samanborið við 7,1 prósent árið áður.
Þetta kemur fram hagtíðindum Hagstofu Íslands en hún tekur árlega saman yfirlit um rekstur helstu greina sjávarútvegs. Úrvinnsla Hagstofu Íslands á þessum gögnum er með sama hætti og tíðkast hefur um langt árabil og er að mestu leyti reist á uppgjörsaðferðum sem beitt er við gerð þjóðhagsreikninga.
Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt (EBITDA) sem hlutfall af heildartekjum hækkaði milli áranna 2017 og 2018. Í fiskveiðum og fiskvinnslu hækkaði hlutfallið (án milliviðskipta) úr 21,2 prósentum í 25,2 prósent, í fiskveiðum fór hlutfallið úr 18,1 prósenti í 18,0 prósent og í fiskvinnslu úr 10,6 prósentum í 14,8 prósent.
Hagnaður í sjávarútvegi ef við miðað er við uppgjörsaðferð er 11,5 prósent árið 2018 eða 25,4 milljarðar samanborið við 6,9 prósent hagnað árið 2017 eða 13,1 milljarðar.
Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjávarútvegsins rúmir 709 milljarðar króna í árslok 2018. Heildarskuldir hækkuðu um 10 prósent á milli ára og numu 412 milljörðum króna. Eigið fé sjávarútvegsins var tæplega 297 milljarðar króna í árslok 2018.
Ótrúlegt góðæri í greininni síðastliðinn áratug
Frá hruni hefur eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna batnað um 355 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008. Nú, líkt og áður sagði er eigin fjárstaða jákvæð um 297 milljarða króna.
Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 12,3 milljarða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 92,5 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur.
Samanlagt hefur hagur sjávarútvegarins, því vænkast um 447,5 milljarða króna frá árinu 2008 og út síðasta ár, eða á einum áratug.
Veiðigjöld voru 11,3 milljarðar króna í fyrra, sem eru þau hæstu sem geirinn hefur greitt. Það nánast tvöfölduðust milli ára, úr 6,8 milljörðum króna árið 2017. Samtals frá árinu 2011, og út síðasta ár, greiddi sjávarútvegurinn 63,3 milljarða króna í veiðigjöld.
Veiðigjöldin áttu að lækka á þessu ári, og áætlað var að þau myndu skila um sjö milljörðum króna í ríkiskassann í ár samkvæmt fjárlagafrumvarpi stjórnvalda. Veiðigjöldin eiga síðan að skila inn enn minna í ríkiskassann á næsta ári vegna fjárfestinga í greininni eða alls 5 milljarða króna.
Ný lög um veiðigjald tóku gildi um síðustu áramót þar sem meðal annars var settur nýr reiknistofn sem byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns. Í fjárlagafrumvarpinu sagði að með breytingunum sé dregið úr töf við meðferð upplýsinga um átta mánuði. „Þá er veiðigjaldið nú ákveðið fyrir almanaksár í stað fiskveiðiárs.“