Helmingur Íslendinga varði allt að 17,7 prósent af ráðstöfunartekjum heimilisins í húsnæðiskostnað árið 2018. Sama ár bjuggu 8,9 prósent einstaklinga á heimilum með íþyngjandi byrði húsnæðiskostnaðar, eða um 31 þúsund einstaklingar á um 17 þúsund heimilum. Húsnæðiskostnaður telst íþyngjandi þegar heildarkostnaður húsnæðis nemur meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum heimilisins.
Þetta kemur fram í niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands fyrir árin 2017 og 2018.
Byrði húsnæðiskostnaðar skiptist ekki jafnt, þar sem einn af hverjum fjórum í lægsta tekjufimmtungnum bjó við íþyngjandi húsnæðiskostnað árið 2018 á meðan hlutfallið var mun lægra í öðrum tekjufimmtungum.
Í frétt Hagstofunnar segir jafnframt að íþyngjandi húsnæðiskostnaður sé algengari meðal leigjenda en meðal fólks sem býr í eigin húsnæði, og hafi bilið milli þessara hópa breikkað ef miðað er við upphaf mælinga árið 2004. Árið 2018 voru 19,6 prósent heimila á leigumarkaði með íþyngjandi húsnæðiskostnað en 7,9 prósent heimila í einkaeigu. Í fjölbýlum með 10 eða fleiri íbúðum er hlutfall heimila með íþyngjandi húsnæðiskostnað hærra, eða um 14,6 prósent, miðað við hlutfallið í einbýlum sem var 9,2 prósent árið 2018.
Samkvæmt Hagstofunni bjúggu árið 2018 4,5 prósent landsmanna eða tæplega 16 þúsund einstaklingar á heimilum sem höfðu verið í vanskilum með húsnæðislán eða húsaleigu á síðustu tólf mánuðum. Hlutfallið hefur lækkað ár frá ári síðan 2013, þó að lækkunin á milli 2017 og 2018 sé innan skekkjumarka, samkvæmt Hagstofunni.
Hlutfall heimila í leiguhúsnæði sem eru í vanskilum hefur aldrei verið lægra, segir í frétt Hagstofunnar. Í upphafi mælinga, árið 2004, voru 12,2 prósent heimila í leiguhúsnæði í vanskilum en árið 2018 voru þau 5,3 prósent. Að jafnaði er hlutfallið lægra meðal heimila í eigin húsnæði, en árið 2018 var það 3,1 prósent.
Tengsl milli menntunar og vanskila
Flestir einstaklingar sem bjuggu á heimilum í vanskilum árið 2018 voru í lægsta tekjufimmtungi, eða rúmlega 10 prósent. Hlutfall einstaklinga sem býr á heimilum í vanskilum minnkar með hækkandi tekjum. Vanskil eru algengari meðal yngri aldurshópa en eldri sem til dæmis má sjá á því að hlutfallslega eru færri 55 ára og eldri sem búa á heimilum í vanskilum miðað við þá sem yngri eru.
Tengsl eru á milli menntunar og vanskila, samkvæmt Hagstofunni. Vanskil eru lægst meðal háskólamenntaðra og hafa farið lækkandi. Árið 2017 var hlutfallið 4,4 prósent en 2,6 prósent árið 2018. Til samanburðar bjuggu 5,9 prósent grunnskólamenntaðra á heimilum í vanskilum árið 2018, eða 3,3 prósentustigum hærra. Að jafnaði er meiri munur á hlutfalli í vanskilum eftir menntun meðal karla en kvenna. Hæst er hlutfall vanskila meðal karla með grunnmenntun, eða 8,4 prósent árið 2018.
Hægt er að skoða frétt Hagstofunnar hér.