Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætlar að koma á fót lögregluráði sem tekur til starfa 1. janúar næstkomandi. Ráðið verður formlegur samráðsvettvangur allra lögreglustjóra landsins auk ríkislögreglustjóra. Með breytingunni mun ríkislögreglustjóri þurfa að bera allar veigamiklar ákvarðanir undir lögregluráðið.
Þetta er á meðal þeirra skipulagsbreytinga innan lögreglunnar sem Áslaug Arna kynnti á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag.
Greint var fá því í morgun að Haraldur Johannessen hefði ákveðið að hætta sem ríkislögreglustjóri um næstu áramót eftir 22 ára starf. Áslaug Arna greindi frá því á fundinum að þau Haraldur hefðu verið sammála um að hleypa nýju starfsfólki að hjá embættinu og að samningur um starfslok Haraldar hefði verið gerður í sátt.
Fyrst um sinn mun Haraldur sinna verkefnum í ráðuneytinu en hann hefur lýst yfir áhuga á því að sinna ráðgjafarhlutverkum á sviði lögreglumála.
Hún greindi jafnframt frá því að embætti ríkislögreglustjóra yrði auglýst laust til umsóknar sem fyrst en frá og með áramótum yrði Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri Suðurlands, settur ríkislögreglustjóri. Hann hefur þó greint ráðherra frá því að hann muni ekki sækja um stöðuna.
Ekki tímabært að sameina lögregluembætti
Á fundinum greindi Áslaug Arna jafnframt frá því að hún teldi ekki tímabært að svo stöddu að sameina lögregluembætti. Rætt hefur verið um að fækka lögregluembættum úr níu í sex. Aðrar breytingar eru hins vegar til skoðunar að sögn ráðherra en hún hefur meðal annars falið ráðuneytið að skoða með hvaða hætti megi bæta eftirlit með lögreglu. Auk þess mun ráðuneytið skoða aðkoma þingsins að eftirliti með lögreglu.
Líkt og greint var frá hér fyrir ofan ætlar Áslaug Arna jafnframt að stofna nýtt lögregluráð sem á að styðja við það að lögreglan verði rekin sem ein samheldin heild.
Lögregluráð mun ekki fara með sjálfstætt lögregluvald eða taka stjórnvaldsákvarðanir en ráðið mun funda mánaðarlega. Ríkislögreglustjóra ber jafnframt að hafa samráð við lögregluráð um allar veigamiklar ákvarðanir. Ráðið á taka til starfa 1. janúar 2020.Fréttin hefur verið uppfærð