Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir í stöðuuppfærslu á Facebook í morgun að henni finnist að rukka mætti borgarfulltrúa fyrir matinn sem boðið er upp á á borgarstjórnarfundum, þau hefðu efni á því. Hún spyr enn fremur af hverju ekki sé frekar verið að bjóða einhverjum á lágum launum, sem sinnir mikilvægu starfi í borginni, í mat.
Ástæðan fyrir skrifum hennar eru fréttir þess efnis að kostnaður við þá 20 fundi sem borgarstjórn hefur haldið frá júlí á síðasta ári til júní á þessu ári nemi rúmum 17 milljónum eða 850 þúsund krónum á hvern fund. Þetta kemur fram í svari fjármála- og áhættustýringasviðs við fyrirspurn Pawels Bartoszek, forseta borgarstjórnar, sem kynnt var á fundi forsætisnefndar fyrir helgi en RÚV greindi frá þessu í morgun.
„Byrja fyrr, ljúka fundi fyrr, þá minnka líkur á því að við borðum kvöldmat á staðnum en fundir borgarstjórnar byrja klukkan 14:00 (í undantekningartilfellum byrja þeir fyrr, t.d. þegar við erum að afgreiða eitthvað stórt sem þarf tvær umræður í borgarstjórn) og við fundum langt fram eftir,“ skrifar Sanna.
Byrja fyrr, ljúka fundi fyrr, þá minnka líkur á því að við borðum kvöldmat á staðnum en fundir borgarstjórnar byrja...
Posted by Sanna Magdalena Mörtudóttir on Tuesday, December 3, 2019
15 þúsund á hvern borgarfulltrúa
Í frétt RÚV kemur fram að inni í þessari upphæð sé matur frá Múlakaffi upp á 5,8 milljónir eða 295 þúsund á hvern fund og svo aðrar veitingar upp á 1,3 milljónir. Á hverjum fundi borgarstjórnar sé því borðað og drukkið fyrir 360 þúsund krónur eða rúmar 15 þúsund krónur á hvern borgarfulltrúa.
„Í svari skrifstofustjóra borgarstjórnar kemur fram að kostnaðurinn við hvern fund borgarstjórnar sé um það bil 850 þúsund krónur. Greitt sé fyrir veitingar handa borgarstjórn, útsendingar á vef Reykjavíkurborgar og fyrir yfirvinnu húsvarða í Ráðhúsinu frá klukkan sex um kvöldið.
Fjármála- og áhættustýringasvið segir að þrír húsverðir séu í yfirvinnu frá klukkan 18 á meðan húsið sé opið. „Ef borgarstjórnarfundir stæðu skemur en til klukkan 18 myndi sparast matarkostnaður, útsendingakostnaður og yfirvinna húsvarða.“ Ekki hafi verið greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu annarra starfsmanna á skrifstofu borgarstjórnar vegna funda borgarstjórnar en að jafnaði séu tveir til þrír starfsmenn á sérstakri fundavakt eftir að dagvinnutíma lýkur,“ segir í fréttinni.