Verðmæti þess afla sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa selt fyrstu sölu hefur aukist verulega síðastliðið ár, miðað við árið á undan. Frá byrjun október 2018 og til loka september síðastliðins var heildarverðmæti þess afla sem útgerðirnar seldu í fyrstu sölu 144,2 milljarðar króna. Það er 15,4 prósent meiri verðmæti en þær fengu fyrir sölu sína á sama tímabili ári áður, þegar hún skilaði 124,9 milljörðum króna.
Mestu munar um að sala á botnfiski hefur gefið mun betur af sér síðastliðið ár en það gerði árið áður. Þar munar 24,5 prósentum. Mest er selt af þorski, en slík sala gaf af sér 67,9 milljarða króna frá októberbyrjun 2018 og út september 2019. Árið áður var verðmæti sölu á þorski 56,8 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í tölum um aflaverðmæti sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku.
Mikil aukning á verkun erlendis
Þorra þess afla sem veiddur er af íslensku sjávarútvegfyrirtækjunum er landað til vinnslu á Íslandi, eða 53 prósent. Mikil aukning er hins vegar í virði á sjófrystum afla, sem eykst um 20,6 prósent á milli ára. Það er þó ekki jafn mikil aukning og er á virði þess hluta aflans sem landað er í gáma til útflutnings, sem eykst um 26,9 prósent milli ára.
Samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar var eigið fé íslensks sjávarútvegs 297 milljarðar króna í lok síðasta árs. Frá lokum árs 2010 hefur eigið féð tífaldast samkvæmt þessum tölum, en það var þá 28,8 milljarðar króna. Á síðasta ári einu saman jókst eigið féð um 28,1 milljarð króna.
Miðað við þá aukningu á aflaverðmæti sem hefur orðið síðastliðið ár má ætla að góðæristíðin verði síst á undanhaldi þegar árið 2019 verður gert upp.
Samherji og tengdir aðilar með mikinn kvóta
Til að veiða fisk í íslenskri lögsögu þarf að komast yfir úthlutaðan kvóta. Slíkur er að uppistöðu í höndum nokkurra fyrirtækjahópa samkvæmt yfirliti um úthlutun sem Fiskistofa birti í september. Lög segja að tengdir aðilar megi ekki halda á meira en 12 prósent kvótans hverju sinni.
Í september 2019 var Samherji, stærsta útgerðarfyrirtæki landsins sem nýlega var ásakað um vafasama og mögulega ólöglega viðskiptahætti víða um heim, með 7,1 prósent úthlutaðs kvóta. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag heldur á 0,64 prósent hans. Síldarvinnslan heldur á 5,3 prósent allra aflaheimilda og sjávarútvegsfyrirtækið Bergur-Huginn er síðan með 2,3 prósent kvótans en það er að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar.
Samanlagt er aflahlutdeild þessara aðila er því rúmlega 16,6 prósent.
Aðrir hópar líka mjög stórir
Brim, eina skráða sjávarútvegsfyrirtækið, er eitt og sér komið yfir löglegt hámark í kvóta í ákveðni tegund og hefur sex mánuði til að koma sér undir það. Alls er Brim með að minnsta kosti 10,4 prósent heildarkvóta.
Stærsti eigandi Brim er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á um 46,26 prósent hlut í því félagi eftir að hafa selt stóran hlut til KG Fiskverkunar fyrir skemmstu. Það félag var 1. september síðastliðinn með 3,9 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Auk þess var félagið Ögurvík með 1,3 prósent aflahlutdeild. Stærstu einstöku eigendur þess eru Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur og forstjóri Brims, og tvö systkini hans með samanlagðan 36,66 prósent endanlegan eignarhlut. Eigandi KG Fiskverkunar er Hjálmar Þór Kristjánsson, bróðir Guðmundar.
Samanlagður kvóti þessara þriggja félaga, sem eru ekki skilgreind sem tengd, var því 15,6 prósent í byrjun september síðastliðins.
Kaupfélag Skagfirðinga á síðan FISK Seafood, sem heldur á 5,3 prósent heildarkvótans auk þess sem FISK á allt hlutafé í Soffanías Cecilsson hf., en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans.. FISK á líka 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja aðila 10,6 prósent.
Vísir og Þorbjörn í Grindavík halda síðan samanlagt á 8,4 prósent af heildarkvótanum, en þau tilkynntu fyrr á þessu ári að þau ætli sér að sameinast. Samanlagt eru þessar fjórar blokkir á tæplega 53 prósent kvótans hið minnsta.