Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur ákveðið að sækja um embættið á nýjan leik en það hefur nú verið auglýst laust til umsóknar fyrir tímabilið 1. júlí 2020 til 30. júní 2025 samkvæmt reglum skólans. Frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni í dag.
„Mér er ánægja að tilkynna að ég mun sækja um að sinna þessu mikilvæga starfi áfram. Vel hefur gengið í starfi skólans á undanförnum árum, en mörg verkefni eru í gangi sem ég hef áhuga á að vinna að með starfsfólki og stúdentum Háskóla Íslands,“ skrifar hann.
Jón Atli var þann 20. apríl 2015 kosinn rektor Háskóla Íslands. Í framboði í seinni umferð var einnig Guðrún Nordal prófessor.
Nú hefur embætti rektors Háskóla Íslands verður auglýst laust til umsóknar fyrir tímabilið 1.7.2020-30.6.2025 samkvæmt...
Posted by Jón Atli Benediktsson on Friday, December 6, 2019
Meðal hlutverka rektors er að hann er forseti háskólaráðs. Hann er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans og talsmaður gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum háskólans. Hann ber ábyrgð á framkvæmd stefnu háskólans og tengslum háskólans við innlenda og erlenda samstarfsaðila. Rektor ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þar með talið ráðningar- og fjármálum einstakra fræðasviða og stofnana. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Á milli funda háskólaráðs fer rektor með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans.