Íbúar Evrópu standa frammi fyrir brýnum og áður óþekktum áskorunum um sjálfbærni sem krefjist aðkallandi lausna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu en á vef Umhverfisstofnunar á Íslandi má sjá umfjöllun um hana. Í skýrslunni er farið yfir stöðu og horfur í umhverfismálum Evrópu.
Þetta er sjötta SOER-skýrslan sem Umhverfisstofnun Evrópu gefur út. Framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Hans Bruyninckx, segir í inngangi skýrslunnar að uppfylla þurfi væntingar borgara um að búa í heilbrigðu umhverfi og muni það krefjast endurnýjaðrar áherslu á framkvæmd sem hornstein í stefnu ESB og stefnu í hverju ríki.
„Við verðum ekki aðeins að gera meira; við verðum líka að gera hlutina með öðrum hætti. Næsta áratug munum við þurfa annars konar lausnir við umhverfis- og loftslagsáskorunum heimsins en þær sem við höfum notað undanfarin 40 ár,“ segir Bruyninckx.
Ekki sé hægt að gera of mikið úr hvatningu til aðgerða í loftslagsmálum. Á síðustu 18 mánuðum hafi komið út stórar skýrslur frá IPCC, IPBES, IRP og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna sem allar hafi svipuð skilaboð: Að þær brautir sem fetaðar eru séu ekki sjálfbærar og að þær tengist helstu framleiðslu- og neyslukerfum okkar. Tíminn sé að renna út til að koma með trúverðugar hugmyndir til að snúa þróuninni við.
Þarf heildstæða stefnu
Í skýrslunni fá pólitíkusar og stefnumótendur ótvíræð skilaboð, samkvæmt Umhverfisstofnun. Megináskorunin felist í því að mannkynið nái fram þróun um allan heim sem leiði til jafnvægis um samfélagsleg, efnahagsleg og umhverfissjónarmið.
„Evrópa mun ekki ná fram framtíðarsýn sinni um sjálfbærni um að „lifa vel, innan marka plánetunnar“ einfaldlega með því að stuðla að hagvexti og leitast við að stjórna skaðlegum aukaverkunum með verkfærum á sviði umhverfis- og félagsmála. Þess í stað þarf sjálfbærni að vera leiðarljós fyrir metnaðarfulla og heildstæða stefnu og aðgerðir í öllu samfélaginu,“ segir í skýrslunni. Jafnframt kemur fram að árið 2020 hafi Evrópa einstaka möguleika á að leiða alþjóðlegt viðbragð við áskorunum um sjálfbærni.
Um ógnir sem kunna að þvælast fyrir mikilvægum umbótum segir meðal annars í skýrslunni að atvinnulíf, framleiðslu- og neyslukerfi samtímans hafi þróast saman í áratugi þannig að róttækar breytingar á þessum kerfum muni líklega „trufla fjárfestingar, störf, hegðun og gildi og skapa viðnám frá atvinnugreinum, svæðum eða neytendum sem hafa áhrif á það.“
Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni hér.