Búið er að birta nýja útgáfu af frumvarpi Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um stuðningsgreiðslur til einkarekinna fjölmiðla. Samkvæmt frumvarpinu verður horfið frá því að endurgreiða 25 prósent af kostnaði við rekstur ritstjórna upp að 50 milljóna króna þaki. Þess í stað verður endurgreiðslan 18 prósent en þakið áfram 50 milljónir króna.
Í síðustu viku spurðist út að hlutfall endurgreiðslu yrði 20 prósent í breyttu frumvarpi en nú liggur ljóst fyrir að það verður enn lægra.
Greiðslurnar verða bundnar við þá upphæð sem sett verður í stuðninginn á fjárlögum hverju sinni og því gæti það gerst að einkareknir fjölmiðlar myndu ekki ná því hlutfalli af rekstrarkostnaði ritstjórna í endurgreiðslu, ef ekki fjármagnið sem sett væri í málaflokkinn nægði ekki til. Á fjárlögum sem samþykkt voru í síðustu viku er 400 milljónir króna settar í stuðning til einkarekinna fjölmiðla.
Málið hefur verið í deiglunni árum saman og drög að frumvarpinu voru fyrst kynnt af ráðherra í lok janúar síðastliðins. Það hefur ekki komist á dagskrá vegna mikillar andstöðu við málið hjá hluta þingflokks Sjálfstæðisflokks. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á því eru til að koma til móts við þá andstöðu.
Stærstu fyrirtækin tala til sín þorra stuðningsins
Viðbúið er að þrjú stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins: Árvakur (útgáfufélag Morgunblaðsins), Sýn og Torg (útgáfufélag Fréttablaðsins), muni fá hámarksendurgreiðslu upp á 50 milljónir króna hvort. Skerðingin á endurgreiðsluhlutfallinu sem orðið hefur á milli frumvarpa Lilju mun því ekki bitna á þeim heldur einvörðungu á minni fjölmiðlafyrirtækjum sem eru ekki með nægjanlega háan rekstrarkostnað til fá hámarksgreiðslu.
Til viðbótar er gert ráð fyrir sérstökum viðbótarstuðningi við einkarekinna fjölmiðla sem nemur allt að fjórum prósentum af þeim hluta af launum launamanna fjölmiðils sem falla undir lægra skattþrep tekjuskattsstofns. Þessi sérstaki stuðningur lækkar úr 5,25 prósentum í upphaflegu frumvarpi Lilju í fjögur prósent. Þeir miðlar sem eru með flest starfsfólk fá þorra viðbótarstuðningsins í sinn hlut.
Samkvæmt nýja frumvarpinu mun ráðherra skipa úthlutunarnefnd um stuðningsgreiðslurnar. Nefndarmennir verða tilnefndir af ríkisendurskoðanda en ráðherrann mun sjálfur skipa formann og varaformann hennar úr hópi þeirra sem sem ríkisendurskoðandi tilnefnir. Umsókn um stuðning á að skila inn, ásamt viðeigandi fylgigögnum, fyrir 31. mars ár hvert og úthlutun verður fyrir fyrra rekstrarár.
Á meðal þeirra skilyrða sem fjölmiðlar þurfa að uppfylla til að geta sótt um stuðning er að fjöldi á ritstjórn sé að minnsta kosti þrír, að fjölmiðillinn hafi verið starfandi í að minnsta kosti tólf mánuði og að hann sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda. Fjölmiðlafyrirtæki verða látin leggja fram staðfestingu á skuldastöðu við opinbera aðila og lífeyrissjóði áður en umsókn þeirra verður samþykkt.
Kjarninn miðlar er eitt þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir endurgreiðslu í frumvarpinu.