Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um viðskipti Samherja í Namibíu, þar sem fyrirtækið var sagt hafa stundað mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu, óskaði Fjármálaeftirlitið eftir tilteknum upplýsingum frá íslenskum bönkum um það hvort að Samherji eða tengd félög hefðu verið í eða væru í viðskiptum við þá.
Ef banki var í slíkum viðskiptum var óskað eftir upplýsingum um áhættumat á þeim félögum og upplýsingum um hvernig reglubundnu eftirliti með þeim væri háttað. „Umræddar athuganir eru enn í vinnslu.“
Þetta segir í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn Kjarnans um hvort að það sé að kanna hvort að íslenskir viðskiptabankar Samherja hafi mögulega tekið þátt í peningaþvætti með viðskiptum við fyrirtækið, sem er nú til rannsóknar vegna gruns um slíks meðal annars í Noregi.
Til rannsóknar í þremur löndum
Málefni Samherja komust í hámæli eftir að Kveikur og Stundin birtu umfjöllun þriðjudaginn 12. september um viðskiptahætti Samherja í Namibíu á síðustu árum á meðan að fyrirtækið náði undir sig mjög verðmætum hrossamakrílskvóta í landinu. Það var gert með mútugreiðslum til tveggja ráðherra í landinu og annarra manna úr þeirra nánasta hring, samkvæmt umfjölluninni. Þær voru sagðar nema 1,4 milljarði króna hið minnsta og hófust með því að reiðufé var afhent í íþróttatöskum en tóku svo á sig faglegri mynd og fóru fram í gegnum millifærslur á reikninga í Dúbaí.
Opinberunin byggði annars vegar á tugþúsundum skjala og tölvupósta sem sýndu viðskiptahættina svart á hvítu, og hins vegar á frásögn Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi verkefnastjóra Samherja í Namibíu, sem játaði á sig fjölmörg lögbrot og sagðist hafa framið þau að undirlagi Þorsteins Más Baldvinssonar, þáverandi forstjóra Samherja og eins aðaleiganda fyrirtækisins, og Aðalsteins Helgasonar, sem var lengi yfir útgerð Samherja í Afríku. Gögnin, sem Jóhannes afhenti Wikileaks, hafa verið birt á internetinu. Þá birti Al Jazeera umfjöllun um málefni Samherja í byrjun desember sem unnin var í samvinnu við ofangreinda miðla og Wikileaks.
Búið er að ákæra sex manns í Namibíu, þar á meðal tvo fyrrverandi ráðherra, fyrir að hafa þegið 860 milljónir króna í greiðslur hið minnsta fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu. Samherjamálið er einnig til rannsóknar í Noregi, þar sem fyrirtækið hefur verið í bankaviðskiptum við DNB, og á Íslandi. Á meðal þess sem er rannsakað er meint peningaþvætti og skattasniðganga.
Þorsteinn Már Baldvinsson sagði tímabundið af sér sem forstjóri Samherja vegna málsins í kjölfar opinberunnar Kveiks og Stundarinnar og hefur auk þess sagt sig úr stjórnum fjölda félaga á Íslandi, í Noregi og í Bretlandi. Björgólfur Jóhannsson tók við sem forstjóri.