Sænska unglingsstúlkan Greta Thunberg, sem ýtt hefur af stað umræðu um umhverfis- og loftslagsmál um heim allan, hefur verið valin manneskja ársins hjá tímaritinu TIME. Thunberg er stödd á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25, sem haldin er í Madríd þessa dagana.
Á vefsíðu TIME kemur fram að Greta hafi náð að breyta óljósum áhyggjum af loftslagsbreytingum yfir í alþjóðlega hreyfingu sem berjist fyrir breytingum á heimsvísu.
Athygli vakti í lok október síðastliðnum þegar hún afþakkaði umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Hún sagði á Instagram-aðgangi sínum að verðlaun skiptu ekki máli.
Hún þakkaði þó fyrir þann heiður að hafa verið valin en sagði að heldur þyrfti að virkja samtakamátt fjöldans og þrýsta á stjórnmálamenn og aðra leiðtoga til að berjast gegn mengun af mannavöldum og loftslagsbreytingum.
Vonina má sjá hjá fólkinu sjálfu
Greta hélt ræðu í dag á COP25 þar sem hún talaði máli vonarinnar. „Ég er að segja ykkur að vonin er til staðar. Ég hef séð hana. En hún kemur ekki frá stjórnvöldum eða fyrirtækjum. Hún kemur frá fólkinu sjálfu,“ sagði hún meðal annars.
“Well I am telling you there is hope. I have seen it. But it does not come from governments or corporations. It comes from the people.” Here’s a small part from my speech today at the #cop25 in Madrid.
Posted by Greta Thunberg on Wednesday, December 11, 2019