Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir, doktor í lögum með tjáningarfrelsi fjölmiðla sem sérsvið og er einnig menntaður stjórnmálafræðingur, er á meðal þeirra sem sóttu um stöðu útvarpsstjóra RÚV áður en að umsóknarfrestur rann út á miðnætti á mánudag. Mbl.is greinir frá.
Herdís starfaði á árum áður í fjölmiðlum og var meðal annars fyrsti ritstjóri tímaritsins Mannlífs. Þá átti hún einnig, ritstýrði og gaf út tímaritið Heimsmynd í tæpan áratug. Herdís bauð sig fram til embættis forseta Íslands árið 2012. Hún starfar í dag sem lögmaður.
Alls sóttu 41 um starfið. Á meðal þeirra sem hafa staðfest að þeir hafi sótt um eru Svanhildur Hólm Valsdóttir, sem hefur verið aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra síðan árið 2012. Þar áður var hún framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins í þrjú ár en starfaði einnig um árabil sem fjölmiðlamaður, meðal annars í Kastljósi og sem þáttastjórnandi í Íslandi í dag á Stöð 2.
Á meðal annarra sem hafa staðfest að þeir hafi sótt um stöðuna eru Elín Hirst, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri númiðla RÚV og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fyrrverandi ritstjóri Kvennablaðsins.
Upphaflegur umsóknarfrestur rann út 2. desember en ákveðið var að framlengja hann um viku, eða til 9. desember.
Í tilkynningu frá stjórn RÚV sem send var út fyrr í gær kom fram að stjórnin ráði útvarpsstjóra og að á næstu vikum verði farið yfir umsóknir. Stjórnin hafi jafnframt fengið ráðningafyrirtækið Capacent til að hafa umsjón með því verkefni. Stjórn RÚV stefni að því að ganga frá ráðningu nýs útvarpsstjóra í lok janúar 2020.