Lífslíkur fólks á Íslandi hafa aukist og eru þær talsvert meiri en að meðaltali innan Evrópusambandsins. Aftur á móti hefur félagslegur ójöfnuður leitt til þess að munur á lífslíkum er að aukast eftir menntunarstigi og tekjum. Til að mynda eru lífslíkur þrítugra karlmanna sem ekki hafa lokið framhaldsskólamenntun næstum fimm árum lægra en þeirra karlmanna sem lokið hafa háskólamenntun.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um heilsufar þjóða.
Efnahagsleg staða hefur áhrif á lífslíkur
Í landsskýrslu stofnunarinnar um Ísland kemur fram að ekki sé eingöngu hægt að rekja ójafnar lífslíkur hér á landi til kynjamismunar heldur einnig til félags- og efnhagslegar stöðu, þar með talið menntunar- og tekjustigs.
Allt frá árinu 2011 hefur munur á lífslíkum eftir menntunarstigum aukist hér á landi. Þeir sem eru með minni menntun hafa dregist aftur úr þeim sem eru með meiri menntun. Á átta árum breikkaði bilið í lífslíkum milli þeirra með minnstu og þeirra með mestu menntun um eitt og hálft ár, þar sem nánast engin aukning átti sér stað hjá þeim með minnstu menntunina.
Í fyrra var staðan sú að lífslíkur þrítugra karlmanna með lægsta menntunarstigið var næstum fimm árum lægra en þeirra sem sátu á toppnum að þessu leyti. Þessi munur á lífslíkum eftir menntun var lægri á meðal kvenna, eða 3,6 ár.
Í skýrslunni segir að þennan mun á lífslíkum eftir menntunarstigi má að hluta til útskýra með því að hópar eru misútsettir fyrir mismunandi áhættu- og lífstílsþáttum, þar með talið hærri reykingatíðni, lakari næringarvenjur og hærra offituhlutfalli meðal karla og kvenna með lægra menntunarstig.
Auk þess tengist þessi munur á lífslíkum mismunandi tekjustigi og lífskjörum, sem svo aftur leiðir til aukinna áhrifa frá öðrum áhættuþáttum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Töluverður munur á milli tekjuhópa
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að flestir Íslendingar telja sig vera við góða heilsu eða alls þrír fjórðu hlutar íbúanna, sem er nokkru hærra en ESB-meðaltalið sem stendur í 70 prósent.
Engu að síður, þá er eins og í öðrum löndum, fólk með lægri tekjur síður líklegt til að segjast vera við góða heilsu. Á meðal þeirra tekjulægstu segjast 70 prósent vera við góða heilsu samanborið við 84 prósent þeirra tekjuhæsta.
Tekjulægri þurfa oftar að neita sér um læknisaðstoð
Þrátt fyrir að mikill meirihluti Íslendinga finni lítið fyrir skorti á læknisþjónustu hér á landi, samkvæmt skýrslunni, þá er töluverður munur í svörum á milli tekjuhópa. Hlutfall þeirra Íslendinga sem sögðust hafa þurft að neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar, fjarlægðar og biðtíma, var í kringum 3 prósent árið 2016.
Hins vegar náði þetta hlutfall á meðal þeirra sem komu úr þeim fimmtungi sem tekjulægstir eru nærri því 5 prósent, sem var rúmlega tvöfalt hærra heldur en á meðal hinna tekjuhæstu 2 prósent. Þetta bil á milli tekjuhópa er mun breiðara hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að þörf eftir þjónustu sem ekki er komið til móts við er í meira mæli þjónusta sem sjúkratryggingar ná ekki til. Þar á meðal eru tannlækningar en árið 2016 sögðust 8 prósent Íslendinga þurfa að búa við óuppfylltar þarfir um tannlækningar.
Fjórfaldur munur er hins vegar til staðar þegar kemur að tekjuhópum en næstum 15 prósent af tekjulægsta hópnum sögðust búa við óuppfylltar þarfir þegar kæmi að tannlækningum. Á meðan að samsvarandi hlutfall meðal hinna tekjuhæstu var aðeins 3 prósent. Þetta hlutfall um óuppfylltar þarfir á meðal hinna tekjulægstu er miklu hærra en á nokkru hinna Norðurlandanna..