Namibíska lögreglan rannsakar ítrekaðar tilraunir til að ráða Jóhannes Stefánsson uppljóstrara í Samherjamálinu af dögum. Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag en rætt verður við Jóhannes í Kastljósi í kvöld.
Jóhannes lét af störfum hjá Samherja í júlí árið 2016 en samkvæmt RÚV hafði hann undir höndum á þeim tíma tölvu fyrirtækisins með miklu magni gagna. Strax þá hafi undarlegir hlutir farið að gerast og ýmsir aðilar sýnt tölvunni áhuga.
Hann segist í samtali við Kastljós hafa verið heppinn að gott fólk í kringum hann hafi gripið inn í og ráðlagt honum að ráða sér lífverði vegna þess að öryggi hans væri ógnað. Tvisvar hafi öryggisúttekt leitt í ljós að hann hafi þurft fjölda lífvarða til að gæta öryggi hans. Oftar en einu sinni hafi verið eitrað fyrir honum í gegnum drykkjarföng og mat og lögreglan í Namibíu telji sig vita hver beri ábyrgð og hvernig staðið hafi verið að verki.
Þann 12. nóvember síðastliðinn birtu Kveikur og Stundin fyrstu umfjallanir sínar sem byggðu meðal annars á gögnum frá Wikileaks og vitnisburði Jóhannesar.
Jóhannes gekkst við því í Kveiksþættinum að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í Namibíu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu, hefði fengið lagalega stöðu uppljóstrara og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.