Það að uppfæra lög um skráningu raunverulegra eigenda íslenskra félaga myndi ekki duga til að koma Íslandi af gráum lista Financial Action Task Force (FATF) vegna óviðunandi ráðstafana landsins í peningaþvættisvörnum á næsta fundi samtakanna í febrúar á næsta ári. Það sé ekki raunsætt að ætla að það verði hægt.
Þetta sagði Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokks, á Alþingi í dag þegar hann mælti fyrir breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda sem flýtir því að allir lögaðilar sem stunda einhverskonar atvinnurekstur á Íslandi þurfa að upplýsa um, og skrá, hverjir raunverulegir eigendur þeirra séu.
Í frumvarpi nefndarinnar, sem Óli Björn mælti fyrir, var lagt til að frestur til að upplýsa um raunverulegt eignarhald verði styttur frá 1. júní 2020 til 1. mars 2020. Verði frumvarpið samþykkt munu félög því hafa nú um tvo og hálfan mánuð til að upplýsa yfirvöld um hverjir eigi þau í raun og veru.
Hefur neikvæð áhrif
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar sem situr í efnahags- og viðskiptanefnd, tók til máls í umræðum um málið og sagðist hafa ákveðnar áhyggjur af því að tíminn sem væri verið að gefa fyrirtækjum til að uppfæra eigendaupplýsingar sínar væri of skammur. Þorsteinn velti einnig fyrir sér hvort að það að færa frestinn til 1. mars myndi hafa einhver áhrif á veru Íslands á gráum lista FATF, en sá listi verður næst endurskoðaður á fundi samtakanna í febrúar næstkomandi, eða áður en að fresturinn sem gefin verður til að upplýsa um raunverulegt eignarhald verður liðinn.
Óli Björn sagði að sér fyndist að Ísland hefði gert nægilega mikið til að hafa átt að komast hjá því að lenda á gráa listanum, en tók undir með Þorsteini um að Ísland hefði verið sofandi á tímum fjármagnshafta. „Það er auðvitað gagnrýnisvert,“ sagði Óli Björn. Þegar höft voru losuð hefði átt að huga betur að því að uppfæra lög og reglur um peningaþvætti. „Við erum auðvitað að bíta úr nálinni með það núna, það er alveg ljóst.“
Óli Björn sagði hins vegar að það hefði verið unnið stórvirki hér á landi við að bregðast við þeim athugasemdum sem FATF setti fram í úttekt sinni snemma árs 2018.
Vill flýta frestinum
Smári McCarthy, þingmaður Pírata og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, sagðist ósammála Óla Birni um að Ísland ætti ekki heima á listanum. Ísland uppfyllti einfaldlega ekki þau skilyrði sem þarf til að mati FATF.
Hann lagði fram breytingartillögu um að færa frest íslenskra félaga til að upplýsa um hver ætti þau í raun og veru til 1. febrúar, svo að það væri komið til framkvæmda þegar næsti fundur FATF yrði haldinn.
Smári minnti hins vegar einnig á að það að vera á gráum lista FATF væri ekki stóra málið, heldur að peningaþvætti væri risastórt vandamál á heimsvísu.