Boðað hefur verið til blaðamannafundar í Þjóðminjasafninu í dag vegna söfnunar fyrir nauðstadda í Namibíu. Ætlunin er að safna fé sem nýtt verði til að efla landbúnað og auka aðgengi að vatni, auk peninga- og matargjafa til þeirra sem verst hafa orðið úti í þurrkunum í Namibíu.
Fyrir söfnuninni standa Hjálmar Árnason, fyrrverandi þingmaður Framsóknar, Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður VG, Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, og Kristján Hjálmarsson, viðskipta- og almannatengslastjóri hjá H:N Markaðssamskiptum, í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi.
Í fréttatilkynningu frá hópnum segir að Alþjóða Rauði krossinn muni á næstu dögum birta ákall til þjóða heimsins og landsfélaga sinna um að bregðast skjótt við og bjarga mannslífum. Í Namibíu er áætlað að um 290.000 manns þurfi á aðstoð að halda.
Samkvæmt tilkynningunni fannst fyrrverandi þingmönnunum það vera skylda sín að svara þessu brýna kalli Rauða krossins með myndarlegri söfnun. Þau höfðu því samband við Rauða krossinn á Íslandi um samstarf fyrir þessa söfnun.
„Ísland hefur um árabil staðið fyrir glæsilegri þróunaraðstoð til Namibíu undir forystu Þróunar- og samvinnustofnunar. Nú ber svo við að neyðarkall berst frá Namibíu. Þúsundir þjást í sunnanverðri Afríku vegna mikilla þurrka með tilheyrandi skorti á fæðu og vatni. Ef ekkert er að gert munu þúsundir deyja,“ segir í tilkynningunni og bent er á að ef hver Íslendingur leggi til 300 krónur þá sé hægt að safna 100 milljónum á svip stundu sem myndi renna beint til þurfandi í Namibíu.
„Við skorum á íslenska þjóð að bregðast vel við þessu ákalli frá vinum okkar í Namibíu. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að senda SMS eða leggja inn á reikning Rauða krossins. Við skorum líka á fyrirtæki, félagahópa og stofnanir að leggja sitt að mörkum. Mannslíf eru í húfi,“ segir að lokum í tilkynningunni en blaðamannafundur um söfnunina fer, líkt og áður segir, fram í Þjóðminjasafninu í dag, 12. desember, klukkan 15.00.