Starfshópur um málefni fanga leggur til tekin verði upp heildræn nálgun á betrun fanga sem byggir á virðingu og kærleik sem leiði af sér lægri endurkomutíðni í fangelsi. Hópurinn leggur meðal annars til að við upphaf fangavistar verði föngum gert kleift að velja um tvær leiðir, annars vegar bataleið og hins vegar refsileið.
Hópurinn leggur jafnframt til að þeir sem svo kjósa fái að dveljast allt að tvö ár eftir að afplánun lýkur í svokölluðu batahúsi. Ríkisstjórnin hefur nú þegar samþykkt að tillögum hópsins verði fylgt eftir.
Há endurkomutíðni fanga
Aðstæður fanga í fangelsum á Íslandi hafa verið mikið í umræðunni upp á síðkastið, líkt og oft áður, og ýmsar breytingar verið boðaðar í betrunarmálum af stjórnvöldum. Dómsmála- og heilbrigðisráðherra samþykktu nýlega aðgerðaráætlun um aðgerðir í heilbrigðismálum í fangelsum og úræðum vegna vímuefnavanda fanga og auknir fjármunir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, skrifaði um þessa ný aðgerðaáætlun og betrun fagna í grein Morgunblaðinu fyrr í vikunni. Þar vísaði hún í rannsókn sem sýnir að tæplega 60 prósent fanga í íslenskum fangelsum glími við vímuefnavanda og um sjötíu prósent eiga sögu um slíkan vanda en samkvæmt henni eru langflestir glæpir eru framdir undir áhrifum fíkniefna.
„Ef unnt væri að grípa inn í og koma fólki á beinu brautina væri hægt að fækka afbrotum og þar af leiðandi endurkomum í fangelsin,“ skrifar Áslaug Arna og bendir á að um helmingur fanga sem afplána í fangelsum landsins hefur áður mátt sæta fangelsisvist.
Hún segir að endurkomur fanga sem í flestum tilvikum ungir karlmenn sé ekki bara vandamál þess sem dæmdur er til refsivistar heldur samfélagsins alls.
„Frelsissvipting er afar íþyngjandi aðgerð og henni fylgir mikil ábyrgð. Stjórnvöldum ber að standa undir þeirri ábyrgð og gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja að raunveruleg betrun eigi sér stað í fangelsum landsins. Með aðstoð fagmanna fáum við betra fólk út úr fangelsunum en gekk þangað inn,“ segir Áslaug Arna.
Heildstæð nálgun nauðsynleg
Félags- og barnamálaráðherra skipaði starfshóp í júní 2018 sem hafði það hlutverk að koma með tillögur um hvernig unnt væri að styðja fanga og fyrrum fanga betur til þátttöku í samfélaginu að lokinni afplánun og draga þar með úr endurkomutíðni í fangelsi
Ráðherra skipaði Þorlák „Tolla“ Morthens, myndlistarmann formann starfshópsins og hefur hópurinn nú skilað skýrslu með tillögum. Í skýrslunni segir við greiningu starfshópsins á verkefnum þeim er honum voru falin kom í ljós að nauðsynlegt væri að huga að heildarmyndinni ef árangur ætti að nást.
Hópurinn leggur því til að tekið verði upp samfellt verklag að bataferli frá því að dómur fellur, meðan viðkomandi einstaklingur bíður afplánunar, á meðan á afplánun stendur og að lokinni afplánun. Þá muni einn aðili halda utan um mál einstaklings í gegnum allt ferlið, til að mynda fulltrúi frá félagsþjónustu sveitarfélaga.
Fjölbreyttari úrræði í boði strax frá dómskvaðningu
Í skýrslunni er fjallað um hve stór hluti fanga glími við geðheilbrigðisvanda og/eða fíknivanda. Starfshópurinn bendir á að hætta sé á því að föngum, sem glíma við geðræna erfiðleika, versni á meðan á fangelsisvist stendur sé ekkert að gert og litlar líkur eru á því að þeim gangi vel að aðlagast samfélaginu að lokinni afplánun.
Í ljósi þess sé því til mikils að vinna fyrir samfélagið í heild að unnið verði markvisst með geðheilbrigði einstaklingsins strax frá fyrstu stigum. Jafnframt hafi rannsóknir bent til þess að meðferð við fíknivanda, sem hefst á meðan refsivist stendur og er fylgt eftir að afplánun lokinni dragi úr fíkniefnaneyslu og líkum á því að viðkomandi brjóti aftur af sér.
Því leggur starfshópurinn til einstaklinga sem hljóta refsidóma hér á landi verði orðin fjölbreyttari og einstaklingsmiðaðri úrræði en nú standa til boða. Megináhersla verði lögð á menntun, starfsendurhæfingu, sálfræðiþjónustu, félagsráðgjöf og í þeim tilvikum sem það á við, fíkniráðgjöf. Sérstök áhersla er lögð á sveigjanleika og að boðið sé upp á að ganga inn í úrræði á hvaða stigi sem er. Auk þess sem þeim sem hætti ástundun ætti ávallt að standa til boða að hefja ástundun að nýju.
Batahús verði sett á fót
Hvað varðar eftirfylgd að fangelsisvist lokinni hefur starfshópurinn horft til sambærilegs úrræðis í Englandi, þar sem sjálfseignarstofnunin „Forward Trust“ hefur náð góðum árangri og náð að draga úr endurkomum í fangelsi og styrkja félagslega stöðu þeirra sem lokið hafa refsivist.
Byggir skipulag úrræðisins á því að þeir sem svo kjósa fái að dveljast allt að tvö ár eftir að afplánun lýkur í svokölluðu batahúsi, þar sem áfram verði unnið með sjálfseflingu einstaklingsins og aðlögun hans að samfélaginu að nýju. Starfshópurinn telur að heppilegt væri ef rekstur slíks batahúss hér á landi væri í höndum sjálfseignarstofnunar eða líknarfélags og að það væri staðsett í íbúðarhverfi á höfuðborgarsvæðinu vegna nálægðar við þjónustu, menntun og vinnu.
Líkt og áður segir þá hefur ríkisstjórnin samþykkt að settur verði á fót stýrihópur undir formennsku félagsmálaráðuneytisins með breiða skírskotun sem falið verði að fylgja eftir tillögum skýrslunnar.