Hlutfall einstaklinga sem býr við þröngbýli hefur hækkað síðastliðin ár. Árið 2018 bjuggu 14,1 prósent einstaklinga þröngt sem er mun hærra borið saman við 10,9 prósent árið 2017 og 7,8 prósent árið 2016. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar í dag.
Hlutfall einstaklinga sem býr þröngt hefur hækkað á öllum aldri en sérstaklega á aldrinum 25 til 34 ára þar sem 24 prósent bjuggu við þröngbýli árið 2018 en 15,6 prósent árið 2017.
Ef litið er á tekjufimmtunga varð mesta breytingin á milli 2016 og 2018 hjá þeim sem eru í lægsta tekjubilinu, en árið 2016 bjuggu 14,3 prósent einstaklingar á heimili við þröngbýli en 30,2 prósent árið 2018.
Þróunin önnur í öðrum Evrópulöndum
Samkvæmt Hagstofunni virðist þessi þróun ekki eiga sér stað í öðrum Evrópulöndum. Samanborið við Norðurlöndin er hlutfallið á Íslandi svipað og í Svíþjóð en það er mun hærra en á hinum Norðurlöndunum. Árið 2018 var hlutfallið 15,2 prósent í Svíþjóð, 6 prósent í Noregi, 9,2 prósent í Danmörku og 7,3 prósent í Finnlandi.
Notast er við alþjóðlega skilgreiningu evrópsku Hagstofunnar á þröngbýli. „Þröngbýli er reiknað út frá fjölda herbergja og samsetningu heimilisfólks. Hvert heimili þarf eitt herbergi sem er sameiginlegt fyrir allt heimilisfólk, eitt herbergi fyrir hvert par á heimilinu, eitt herbergi fyrir hvern einhleypan einstakling 18 ára og eldri, eitt herbergi fyrir hverja tvo einstaklinga 12 til 17 ára af sama kyni og eitt herbergi fyrir hverja tvo einstaklinga undir 12 ára aldri,“ segir á vef Hagstofunnar.
Marktækur munur eftir aldri hvort fólk segist búa húsnæði í lélegu ástandi
Frá árinu 2015 hefur hlutfall einstaklinga sem segjast búa í húsnæði í lélegu ástandi staðið nokkurn veginn í stað. Árið 2017 var hlutfallið 19,8 prósent en 19,2 prósent árið 2018. Lítill munur er á milli kynja en marktækur munur er á aldri. Hlutfall einstaklinga 35 til 44 ára sem segist búa í húsnæði í lélegu ástandi var 23,9 prósent árið 2018 en lægst var hlutfallið fyrir einstaklinga 65 ára og eldri eða 8,9 prósent.
Þetta er meðal nýrra niðurstaðna úr Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Niðurstöðurnar byggja á svörum fólks við því hvort það eigi í vandræðum með þakleka, raka eða fúa í veggjum, gólfi eða gluggum. Sé svarað játandi telst viðkomandi til þeirra sem segjast búa við lélegt ástand húsnæðis.