Boeing, stærsti flugvéla- og loftfaraframleiðandi heims, hefur stöðvað framleiðslu á 737 Max vélunum. Þær hafa verið kyrrsettar frá því 28. mars, um allan heim, og því verið ónothæfar í farþegaflugi.
Eitt þeirra flugfélaga sem hafa orðið fyrir miklu tjóni er Icelandair, en í síðustu tilkynningu frá félaginu þar sem fjallað var um kyrrsetninguna kemur fram að félagið geri ráð fyrir að Max vélarnar komi til notkunar í mars. Ekki liggur fyrir enn hvenær kyrrsetningu verður aflétt, og er það meðal annars þess vegna sem framleiðslan hefur tímabundið verið stöðvuð.
Um 40 vélar hafa komið úr framleiðslu á mánuði, hjá Boeing, en þegar mest var voru þær 53. Boeing er stærsta útflutningsfyrirtækja Bandaríkjanna og eru starfsmenn fyrirtækisins um 80 þúsund á Seattle svæðinu, þar sem hjartað í framleiðslu fyrirtækisins hefur verið frá stofnun.
Shutdown likely at Boeing Renton as 737 MAX crisis extends https://t.co/GBhj24KfPc via @seattletimes
— Dominic Gates (@dominicgates) December 16, 2019
Ástæðan fyrir kyrrsetningunni eru flugslys í Indónesíu 29. október í fyrra og í Eþíópíu 13. mars, en í þeim létust allir um borð, samtals 346. Frumniðurstöður rannsókna í löndunum fyrrnefndu benda til þess að vélarnar hafi verið með gallað MCAS-kerfi, sem á að sporna gegn ofrisi, og því hafi þær togast til jarðar með fyrrnefndu afleiðingum.
Fjölmargar athugasemdir hafa einnig komið fram í rannsóknum annarra á Boeing, þar á meðal hjá alríkislögreglunni FBI. Auk þess er Bandaríkjaþing ennþá að rannsaka félagið og hvernig það stóð að upplýsingagjöf til bandarískra flugmálayfirvalda og eftirlitsaðila. Í yfirheyrslum í þinginu hafa stjórnendur Boeing verið harðlega gagnrýndir fyrir að upplýsa ekki um galla í vélunum, og einnig að slaka á eftirliti með framleiðslunni.
Kyrrsetningin á Max vélunum hefur haft mikil áhrif víða um heim, ekki síst á Íslandi. Í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í nóvember, segir að samdráttur í ferðaþjónustu á árinu hafi ekki síst átt sér stað vegna kyrrsetningar á Max vélunum, sem hefur leitt til þess að Icelandair hefur þurft að draga úr sætaframboði.