Icelandair gerir nú ráð fyrir því að Boeing 737 MAX flugvélar verði komnar í rekstur í maí 2020. Áður hafði verið gert ráð fyrir vélunum í flugáætlun félagsins í byrjun mars. Flugvélarnar hafa verið kyrrsettar frá því 28. mars, um allan heim, og því verið ónothæfar í farþegaflugi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en flugfélagið segir að þessi ákvörðun hafi lítil áhrif á farþega og flugáætlun félagsins á þessu tímabili.
Kjarninn greindi frá því í gær að Boeing hafi tímabundið hætt framleiðslu á 737 Max vélunum, meðal annars vegna þess að ekki enn liggur fyrir hvenær kyrrsetningunni verður aflétt.
Ástæðan fyrir kyrrsetningunni eru flugslys í Indónesíu 29. október í fyrra og í Eþíópíu 13. mars sama ár, en í þeim létust allir um borð, samtals 346. Frumniðurstöður rannsókna í löndunum fyrrnefndu benda til þess að vélarnar hafi verið með gallað MCAS-kerfi, sem á að sporna gegn ofrisi, og því hafi þær togast til jarðar með fyrrnefndu afleiðingum.
Fjölmargar athugasemdir hafa einnig komið fram í rannsóknum annarra á Boeing, þar á meðal hjá alríkislögreglunni FBI. Auk þess er Bandaríkjaþing ennþá að rannsaka félagið og hvernig það stóð að upplýsingagjöf til bandarískra flugmálayfirvalda og eftirlitsaðila. Í yfirheyrslum í þinginu hafa stjórnendur Boeing verið harðlega gagnrýndir fyrir að upplýsa ekki um galla í vélunum, og einnig að slaka á eftirliti með framleiðslunni.
Kyrrsetningin á Max vélunum hefur haft mikil áhrif víða um heim, ekki síst á Íslandi. Í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í nóvember, segir að samdráttur í ferðaþjónustu á árinu hafi ekki síst átt sér stað vegna kyrrsetningar á Max vélunum, sem hefur leitt til þess að Icelandair hefur þurft að draga úr sætaframboði.
Icelandair Group hefur í tvígang gert bráðabirgðasamkomulag við Boeing um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar MAX vélanna. Áframhaldandi viðræður við Boeing um að fá heildartjón vegna kyrrsetningarinnar bætt standa enn yfir.
Lítil áhrif á framboð
Í tilkynningu Icelandair segir að félagið fylgist áfram með þróun mála varðandi afléttingu kyrrsetningar MAX vélanna. Yfirgripsmikið og vandað ferli sem sé stýrt af alþjóðlegum flugmálayfirvöldum standi nú yfir með það að markmiði að tryggja öryggi vélanna og koma þeim aftur í rekstur.
Jafnframt segir í tilkynningu Icelandair að vegna kyrrsetningar MAX vélanna verða fleiri Boeing 757 flugvélar áfram í rekstri hjá félaginu á næsta ári en upphaflega hafði verið áætlað. Þá hefur félagið tekið á leigu tvær Boeing 737-800 NG flugvélar sem koma í rekstur í vor og gerir þar að auki ráð fyrir að bæta þriðju leiguvélinni við.
„Við teljum ólíklegt að MAX vélarnar verði komnar aftur í rekstur fyrr en í maí og höfum aðlagað flugáætlun félagsins að því. Vegna mótvægisaðgerða sem við höfum þegar gripið til kemur þetta til með að hafa lítil áhrifin á framboð og farþega okkar. Við settum flugáætlunina fyrir næsta ár upp þannig að áhrif frekari kyrrsetningar MAX vélanna yrðu takmörkuð. Við erum því vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru, bæði hvað flotamálin varðar sem og aðra þjónustu félagsins við farþega,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.