„Þetta uppátæki Svanhildar Hólm - að sækja um stöðu útvarpsstjóra - sýnir okkur hið furðulega samband Sjálfstæðismanna við Ríkisútvarpið. Annars vegar standa þeim í linnulausum árásum á stofnunina, með hótunum og hlutdrægnibrigslum gagnvart hverjum þeim sem ekki hefur svarið trúnaðareiða í Valhöll – láta eins og það sé sérstakt keppikefli allra sem þarna starfa að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn – og hins vegar telja þeir sig geta gengið þarna inn og út að vild og tekið sér þær stöður sem þá fýsir hverju sinni.“
Þetta segir Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann fjallar um umsókn Svanhildar Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanns Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, um stöðu útvarpsstjóra RÚV.
Auðvitað er Sjálfstæðisflokkurinn ekki krabbamein í þjóðlífinu eða bandalag barnaníðinga. Þetta er bara fólkið í næsta...
Posted by Guðmundur Andri Thorsson on Tuesday, December 17, 2019
Svanhildur hefur verið aðstoðarmaður Bjarna frá árinu 2012. Hún var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins í þrjú ár þar á undan en starfaði einnig um árabil sem fjölmiðlamaður, meðal annars í Kastljósi og sem þáttastjórnandi í Íslandi í dag á Stöð 2.
Sjálfstæðisfólk bara fólkið í næsta húsi
Í stöðuuppfærslunni segir Guðmundur Andri að auðvitað sé Sjálfstæðisflokkurinn ekki krabbamein í þjóðlífinu eða bandalag barnaníðinga. „Þetta er bara fólkið í næsta húsi, frændur og frænkur – vissulega svolítið margir forstjórar og kvótagreifar en þó fyrst og fremst alls konar fólk sem hefur sterka sannfæringu fyrir því að málum sé allajafnan betur komið í höndum einstaklinga og félagasamtaka en ríkisins, sem þetta fólk lítur á sem eitthvað annað en samstarf borgaranna um samfélagsleg úrlausnarefni sem fjármagna þurfi með sköttum. Fólk sem trúir því að hver sé sinnar gæfu smiður – ekki með spurningamerki, eins og Kata frænka orðaði það. Sem sé: Sjálfstæðisflokkurinn er ekki illvirkjasveit. Slík demóníserandi orðræða missir marks þegar horfinn er fyrsti stundar-unaðurinn af því að ausa fúkyrðum yfir fólk.“
Flokkurinn sé hins vegar ekki hinn eðlilegi vettvangur valda og samskipta í samfélaginu, og að mati Guðmundar Andra eru trúnaðarstörf fyrir flokkinn ekki endilega góður undirbúningur að valdastöðum á samfélagsvísu.
Svanhildur er ein af þeim 41 einstaklingum sem sótti um stöðu útvarpsstjóra RÚV áður en frestur til þess rann út fyrr í mánuðinum. Stjórn RÚV mun taka ákvörðun um hver fær starfið í kjölfar þess að umsækjendur fara í gegnum matsferli hjá Capacent. Ekki verður greint frá því hverjir sóttu um en stjórn RÚV taldi að slíkt myndi fæla hæfa umsækjendur frá því að sækja um stöðuna. Nokkrir hafa þó staðfest í fjölmiðlum að þeir hafi sótt um stöðuna.
Á meðal annarra sem hafa staðfest að þeir hafi sótt um stöðuna eru Elín Hirst, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri númiðla RÚV, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fyrrverandi ritstjóri Kvennablaðsins og Herdís Kjerúlf Þorvaldsdóttir, doktor í lögum og fyrrverandi forsetaframbjóðandi.