Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sent Liliane Maury Pasquier, forseta Evrópuráðsþingsins, erindi og vakið athygli á því að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hafi gerst brotleg við siðareglur alþingismanna, fyrst þingmanna hér á landi. Ásmundur segir að Evrópuráðsþingið ætti að íhuga aðgerðir gagnvart Þórhildi Sunnu í ljósi þessa. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Í júní síðastliðnum féllst forsætisnefnd Alþingis á niðurstöður siðanefndar þingsins þess efnis að Þórhildur Sunna hefði brotið gegn siðareglum alþingismanna með ummælum sínum um Ásmund í Silfrinu.
Ásmundur hafði sjálfur óskað eftir því að nefndin tæki til skoðunar hvort þingmenn Pírata Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna hefðu með ummælum sínum á opinberum vettvangi um endurgreiðslur þingsins á aksturskostnaði Ásmundar brotið í bága við siðareglurnar.
Ásmundur segir í samtali við Morgunblaðið að honum finnist mikilvægt að gera Evrópuráðsþinginu viðvart um þessi brot þingmannsins. „Þórhildur Sunna rækti ekki störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika samkvæmt áliti forsætisnefndar og siðanefndar,“ segir Ásmundur en Þórhildur Sunna er varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins.
„Evrópuráðsþingið hefur ítrekað lagt mikla áherslu á það við aðildarríki sín að þau setji siðareglur fyrir alþingismenn sem feli jafnframt í sér viðurlög. Þá hefur Evrópuráðsþingið sjálft sett sér siðareglur þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum, til dæmis skerðingu réttinda innan þingsins,“ segir Ásmundur og bendir jafnframt á að Evrópuráðsþingið hafi áður látið sig varða skipan Íslandsdeildar.