Bára Huld Beck

Sundrung vegna samfélagssáttmála

Megintilgangur nýrra siðareglna fyrir alþingismenn er að efla gagn­sæi í störfum þing­manna og ábyrgð­ar­skyldu þeirra, og jafn­framt að efla til­trú og traust almenn­ings á Alþing­i. Miðað við umræðu um niðurstöður siðanefndar og forsætisnefndar í fyrstu málum nefndanna hefur þessum tilgangi ekki verið náð.

Ákveðnar reglur gilda í sam­fé­lagi manna sem almennt er farið eft­ir. Þessar reglur eru stundum kall­aðar „soci­al-norm“ og er það sátt­máli sem fólk tekur mið af í hegðun sinni og gjörð­um. Í ætt við þennan sátt­mála eru siða­reglur sem fólk fer alla­jafna eftir í hinu dag­lega lífi. Þegar þessi sam­fé­lags­sátt­máli er síðan rof­inn, eða siða­reglum er ekki fylgt, geta ýmsar afleið­ingar hlot­ist af en mis­jafnar skoð­anir eru á því hverjar þær ættu að ver­a. 

Siða­reglur starfs­stétta eru 20. alda fyr­ir­bæri sem ruddi sér til rúms þegar sam­ræma þurfti það hyggju­vit og skyn­semi sem fólk alla­jafna ber. Fjöl­margar starfs­stéttir hafa komið sér upp siða­reglum til að skýra hlut­verk þeirra og setja almennar reglur sem fólk getur litið til ef vafi leikur á hvað rétt og rangt sé að gera. Til­finn­ingar og heil­brigð skyn­semi eiga að geta leitt okkur áfram í dag­legu lífi og starfi en þegar ágrein­ingur verður eða þegar rök­styðja þarf ákveðnar gjörðir hefur í sam­fé­lagi manna verið gripið til þess að setja sér­stakar siða­reglur fyrir fólk að hafa til hlið­sjón­ar.

Margir hafa þó efast um gildi siða­reglna – sér­stak­lega í ljósi þess að erfitt hefur reynst að fá sátt um siða­reglur og þá sér­stak­lega siða­nefnd­ir. Gríð­ar­lega mikil umræða hefur sprottið upp í kjöl­far nýlegra nið­ur­staðna for­sætis­nefndar þar sem hún féllst á álit siða­nefndar í nokkrum umdeildum mál­u­m. 

Þar sem siða­reglur alþing­is­manna voru sér­stak­lega settar á lagg­irnar til að byggja upp traust alþing­is­manna er vert að kanna hver til­gangur þeirra sé – hvort raun­hæft þyki að setja slíkar reglur ef almenn­ingur og þing­menn­irnir sjálfir taka ekki mark á nið­ur­stöðum nefnda sem telja að brot hafi átt sér stað. Og það sem meira er – verður hægt að taka mark á nið­ur­stöðum siða­nefndar og for­sætis­nefndar í fram­tíð­inn­i? 

Þing­menn skulu ekki skaða ímynd Alþingis með fram­komu sinni

Siða­reglur alþing­is­manna eru til­tölu­legar nýjar af nál­inni. Alþingi Íslend­inga sam­þykkti nýjar siða­reglur fyrir þing­menn í mars 2016 en meðal þess sem stendur í þeim er að þeir skuli ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með fram­komu sinni. Til­­­gang­­ur­inn með siða­regl­unum var að efla gagn­­sæi í störfum þing­­manna og ábyrgð­­ar­­skyldu þeirra, og jafn­­framt að efla „til­­trú og traust almenn­ings á Alþing­i.“

Allir for­­setar Alþingis og þing­­flokks­­for­­menn allra flokka stóðu að til­­lög­unni, sem átti sér langan aðdrag­anda. Alþingi sam­­þykkti breyt­ingar á þing­­sköpum í júní árið 2011, og þar kom meðal ann­­ars fram að leggja ætti fram til­­lögu að siða­­reglum fyrir þing­­menn. For­­sæt­is­­nefnd hóf vinnu við slíkar reglur og skil­aði til­­lögum rétt fyrir þing­­lok árið 2013, þá var þegar ljóst að ekki myndi nást sam­komu­lag um að afgreiða mál­ið. Ný for­­sæt­is­­nefnd fjall­aði um siða­­reglur strax sum­­­arið 2013 og var meðal ann­ars horft til siða­reglna Evr­­ópu­ráðs­­þings­ins.

Alþingi Íslendinga samþykkti nýjar siðareglur fyrir þingmenn í mars 2016 en meðal þess sem stendur í þeim er að þeir skuli ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með fram­komu sinni.
Bára Huld Beck

Sam­­kvæmt siða­regl­unum eiga þing­­menn að rækja störf sín af ábyrgð, heil­indum og heið­­ar­­leika, taka ákvarð­­anir í almanna­þágu, ekki nýta opin­bera stöðu sína til per­­són­u­­legs ávinn­ings fyrir sig eða aðra og efla og styðja siða­regl­­urnar með því að sýna frum­­kvæði og for­­dæmi. Þing­menn skulu í öllu hátt­erni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virð­ing­u. 

#metoo hafði áhrif

Við­bætur við siða­­reglur þing­­manna voru sam­­þykktar á Alþingi 5. júní 2018 með öllum greiddum atkvæð­­um. Í fyrsta lagi var lagt til að nýjum staf­lið yrði bætt við sem segir að alþing­is­­­menn verði að leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heil­brigt starfs­um­hverfi innan þings sem utan og hvar­vetna þar sem þeir sinna störfum sín­um, þar sem hafnað er hvers konar kyn­­­ferð­is­­­legri eða kyn­bund­inni áreitni, ein­elti eða annarri van­virð­andi fram­komu.

Í öðru lagi var lagt til að á eftir sjö­undu grein siða­regln­anna kæmi ný grein sem hljóði svo: „Þing­­­menn skulu ekki sýna öðrum þing­­­mönn­um, starfs­­­mönnum þings­ins eða gestum kyn­­­ferð­is­­­lega eða kyn­bundna áreitni, leggja þá í ein­elti eða koma fram við þá á annan van­virð­andi hátt.“

Eld­fimt fyrsta mál

Stutt er síðan fyrsta nið­ur­staðan var kunn­gjörð en í lok júní síð­ast­lið­ins féllst for­sætis­nefnd á nið­ur­stöðu siða­nefndar í máli Þór­hildar Sunnu Ævars­dótt­ur, þing­flokks­for­manns Pírata. Siða­nefnd taldi að ummæli sem hún lét falla í Silfr­inu þann 25. febr­­úar 2018 hefðu ekki verið í sam­ræmi við siða­­reglur fyrir alþing­is­­menn. 

Ásmundur Frið­­riks­­son, þing­­maður Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins, óskaði eftir því við for­­sæt­is­­nefnd þann 10. jan­úar síð­­ast­lið­inn að tekið væri til skoð­unar hvort þing­­menn Pírata Björn Leví Gunn­­ar­s­­son og Þór­hildur Sunna hefðu með ummælum sínum á opin­berum vett­vangi um end­­ur­greiðslur þings­ins á akst­­ur­s­­kostn­aði Ásmundar brotið í bága við siða­regl­­urn­­ar.

Nið­­ur­­staða siða­­nefndar var sem fyrr segir að ummæli Þór­hildar Sunnu frá 25. febr­­úar 2018 væru ekki í sam­ræmi við a- og c-lið 1. mgr.,. 5. gr. og 7 gr. siða­reglna fyrir alþing­is­­menn. Í þeim segir að alþing­is­­menn skuli sem þjóð­­kjörnir full­­trúar rækja störf sín af ábyrgð, heil­indum og heið­­ar­­leika, ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með fram­komu sinni. Þing­­menn skuli í öllu hátt­erni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virð­ingu. Siða­­nefnd kom­ast aftur á móti að þeirri nið­­ur­­stöðu að ummæli Björns Levís hefðu ekki brotið í bága við siða­regl­­urn­­ar.

„Al­var­legra að benda á sam­trygg­ingu en að taka þátt í leikn­um“

Nið­ur­staða siða­nefndar var væg­ast sagt umdeild og mót­mælti Þór­hildur Sunna henni sjálf á Face­book-­síðu sinni. „Siða­­nefnd Alþingis telur alvar­­legra að benda á sam­­trygg­ingu og sjálftöku heldur en að taka þátt í leikn­­um. Ég sætti mig ekki við það og mun nýta minn and­­mæla­rétt til þess að fá þessu hnekkt,“ skrif­aði hún. 

Þór­hildur Sunna sagði að fengi þessi nið­­ur­­staða að standa væru skila­­boðin til okkar allra þau að það væri verra að benda á vanda­­málin en að vera sá sem skapar þau. „Ég er alger­­lega búin að fá nóg af slíkri með­­­virkn­i.“ For­sætis­nefnd féll­st, eins og áður seg­ir, á nið­ur­stöð­una. 

Þingmenn Miðflokksins
Samsett mynd

Klaust­ur­upp­tök­urnar draga dilk á eftir sér

Annað umdeilt mál kom á borð for­sætis­nefndar en í síð­ustu viku stað­festi hún álit siða­nefndar þess efnis að Berg­þór Óla­son og Gunn­ar Bragi Sveins­­son, þing­menn Mið­flokks­ins, hafi brotið siða­regl­ur alþing­is­­manna með um­­mæl­um sín­um á Klaustur bar þann 20. nóv­­em­ber síð­ast­lið­inn.

Aðrir þing­­menn sem tóku þátt í téðu sam­tal­i, þau Sig­­mund­ur Davíð Gunn­laugs­­son og Anna Kol­brún Árna­dótt­ir úr Mið­flokki og Karl Gauti Hjalta­­son og Ólaf­ur Ísleifs­­son, sem voru í Flokki fólks­ins þegar sam­talið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Mið­flokk­inn, brutu ekki gegn siða­regl­um alþing­is­­manna, sam­kvæmt nefnd­inn­i. 

Berg­þór og Gunn­ar Bragi þóttu með um­­mæl­um sín­um hafa brotið gegn c- og d-lið 1. mgr. 5. gr. og 7. og 8. gr. siða­reglna alþing­is­­manna, en þar seg­ir m.a. að alþing­is­­menn skuli sem þjóð­kjörn­ir full­­trú­ar „leggja sig fram um að skapa í störf­um sín­um heil­brigt starfs­um­hverfi inn­­an þings sem utan og hvar­vetna þar sem þeir sinna störf­um sín­um þar sem hafnað er hvers kon­ar kyn­­ferð­is­­­legri eða kyn­bund­inni áreitni, ein­elti eða ann­arri van­v­irð­andi fram­komu“. Seg­ir einnig í regl­un­um að þing­­menn skuli ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með fram­komu sinni. Siða­nefnd Alþingis taldi aftur á móti að ummæli Önnu Kol­brúnar Árna­dótt­ur, þing­manns Mið­flokks­ins, um Freyju Har­alds­dóttur hafi ekki brotið gegn siða­reglum Alþing­is.

End­ur­skoðun framundan

Nýlega kom fram í fréttum að Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Alþing­is, und­ir­búi nú end­ur­skoðun siða­reglna fyrir alþing­is­menn í sam­vinnu við Helgu Völu Helga­dótt­ur, for­mann stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefndar þings­ins.

Í sam­tali við Vísi þann 3. ágúst síð­ast­lið­inn sagði hann að þau væru búin að kasta á milli sín hug­myndum og hefðu verið að sanka að sér gögn­um. „Nú er komin ákveðin reynsla á fram­kvæmd­ina og búið að reyna á ýmis­legt og það er nú aðal­lega sú umgjörð sem við erum að skoða og fram­kvæmd regln­anna,“ sagði hann. Stein­grímur sagð­ist ekki eiga von á því að sjálfar hátt­ern­is­regl­urnar yrðu teknar upp heldur aðal­lega fram­kvæmd þeirra og far­vegur kvart­ana.

Ljóst að verk­lagið gengur ekki upp

Helga Vala stað­festir þetta í sam­tali við Kjarn­ann og segir að Stein­grímur hafi haft sam­band við sig síð­asta vetur til þess að fara yfir mál­in. Hún segir að henni hafi strax orðið ljóst að verk­lagið í kringum siða­regl­urnar gangi ekki upp. 

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Bára Huld Beck

Hún segir að Íslend­ingar þurfi í raun ekki að finna upp hjól­ið. „Siða­reglur okkar eru byggðar á reglum Evr­ópu­þings sem þó eru nokkuð frá­brugðnar og má skoða hvort leita megi meira þang­að. Þá hef ég áður nefnt að ÖSE hefur gefið út ítar­legar leið­bein­ingar um gerð og fram­kvæmd siða­reglna fyrir þjóð­þing aðild­ar­ríkj­anna og tel ég ein­boðið að fara vel yfir þær,“ segir hún. 

„Við þurfum að kanna aðkomu ann­arra stjórn­mála­manna og for­sætis­nefnd­ar,“ segir hún en bætir því þó við að þessar sam­ræður um regl­urnar séu enn algjör­lega óform­leg­ar. „Þetta fer ekki á form­legan stað fyrr en for­sætis­nefnd fær drög að til­lögum um breyt­ingar og þegar drög að þings­á­lykt­un­ar­til­lögu fer til stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar.“

Standa og falla með trú­verð­ug­leik­anum

Hún bendir á að það að setja við­ur­lög við broti á siða­reglum sé flókið út af póli­tískri stöðu. „Það væri hægt að senda fólk í leyfi eða látið það ekki gegna trún­að­ar­störfum innan þings­ins. Það væri hug­mynd til að velta fyrir sér,“ segir hún.

Helga Vala telur að hægt sé að end­ur­skoða siða­regl­urn­ar, þrátt fyrir að margt hafi „mis­tek­ist hrapal­lega“ í ferl­inu hingað til. En hún bætir því við að ekki sé hægt að byggja upp traust með því einu að breyta siða­regl­um. „Hvert og eitt okkar stöndum og föllum með trú­verð­ug­leik­an­um.“

Siða­reglur eiga að bæta menn­ingu innan hóps

Sig­urður Krist­ins­son, pró­fessor í heim­speki við félags­vís­inda­deild Háskól­ans á Akur­eyri, hefur skrifað bók og greinar um siða­reglur til fjölda ára. Hann segir í sam­tali við Kjarn­ann að til­gang­ur­inn með siða­reglum sé marg­vís­leg­ur. Að hans mati er þó mik­il­væg­asti til­gangur skráðra siða­reglna sá að bæta menn­ingu innan hóps­ins sem setur sér regl­un­ar. Það þýði að þessi hópur hagi sam­skiptum sínum og vinnu­brögðum á betri hátt með til­liti til til­gangs hóps­ins. 

Þá sé hægt að spyrja sig hvort „dýnamíkin“ innan hóps hjálpi honum að sinna hlut­verki sínu vel og ef svo er ekki þá þurfi að bæta menn­ing­una innan hans. Að setja siða­reglur væri þá að aðferð til að gera hann betur færan til að sinna sínu hlut­verki og gætu þær jafn­framt miðlað upp­safn­aðri þekk­ingu. Þá sé hægt að læra af mis­tök­um, til að mynda er varða sam­skipti og freistni­vanda. 

Umræðan ætti að verða mál­efna­legri

Sigurður Kristinsson Mynd: HÍ„Með því að setja siða­reglur er gerður nokk­urs konar sátt­máli innan hóps­ins,“ segir Sig­urð­ur. Þá lofi fólk – þegar það gengst við siða­regl­unum – að standa við þær gegn því að aðrir geri það líka og að taka þær fram yfir sína eigin hags­muni. Hann bendir á að siða­reglur miðli einnig mik­il­vægum skila­boðum út á við, það er þegar lof­orð er gefið til skjól­stæð­inga, eða í til­viki stjórn­mála­manna til kjós­enda sem síðan dæma gjörðir þeirra á end­an­um. 

„Þegar slíkur sátt­máli er kom­inn þá verður umræðan mál­efna­legri,“ segir hann og bætir því við að í þeim til­fellum verði siða­reglur hjálp­ar­tæki þegar á þarf að halda. 

Sig­urður segir að til­gangur siða­reglna sé að bæta þessa menn­ingu og að þær séu þetta hjálp­ar­tæki, meðal ann­ars til að sam­ræma vænt­ingar – frekar en ytra eft­ir­lit. „Lyk­il­at­riðið er að þær eru liður í sjálf­ræði hóps­ins, sam­eig­in­legar regl­ur. Þær virka ekki sem ytra vald­boð.“ Mik­il­vægt er, að hans mati, að vandað sé til verka þegar siða­reglur eru gerð­ar. „Ferlið skiptir oft meira máli en útkoman sjálf,“ segir hann. Á end­anum sé engin for­skrift að siða­regl­u­m.  

Fara verður var­lega í að beita við­ur­lögum

Þegar talið berst að siða­reglum þing­manna þá segir Sig­urður að fara verði var­lega í það að beita við­ur­lög­um. „Ef við lítum á siða­reglur sem innri og ytri sátt­mála þá koma ytri við­ur­lögin frá kjós­end­um.“ Þeir ákveði með atkvæði sínu hvort þing­menn hafi staðið við sátt­mál­ann. Hvað varðar innri sátt­mála þá væri hægt að líta svo á að ef þing­menn brjóta siða­reglur þá njóti þeir ekki trausts innan þings­ins. Við­ur­lög gætu í því til­felli verið tíma­bund­in, þeir gætu til að mynda ekki verið for­menn í nefndum eða sinnt ákveðnum trún­að­ar­störf­um. Þessi leið er þó vand­með­farin að mati Sig­urð­ar. 

Hann segir enn fremur að siða­reglur geti verið til trafala í erf­iðum og flóknum málum á borð við Klaust­ur­mál­ið. „Það er alltaf sú hætta fyrir hendi að þegar búið er að setja upp siða­nefnd sem úrskurðar um brot þá fari málið að snú­ast um máls­með­ferð – eins og fyrir dóm­stól­u­m.“ Kost­ur­inn við að hafa siða­reglur en ekki siða­nefnd er sá að þá sé skýr­ara að hlut­verk regln­anna sé að styðja við mál­efna­lega umræðu og ígrund­un.

Á hinn bóg­inn séu ákveðin rök fyrir því að setja á fót sér­staka siða­nefnd, til dæmis hjá fag­fé­lög­um. Það geti verið liður í að vernda skjól­stæð­inga og þá gef­ist fólki jafn­framt kostur á að verja sig gegn til­hæfu­lausum ásök­un­um. Vand­aðir úrskurðir geta búið til gagn­leg við­mið.

En hvað þyrfti Alþingi að gera til að öðl­ast traust almenn­ings og þing­heims? Sig­urður telur það skyn­sam­legt að end­ur­skoða siða­regl­urnar og ferlið í heild sinni á ný, eins og til stendur að gera í vet­ur. „Mér finnst það vera aðal­at­riðið að allir þing­menn­irnir hafi sam­ráð og að úr verði raun­veru­legur sátt­máli milli þeirra.“ Þá vonar hann að sú end­ur­skoðun verði ekki gerð að póli­tísku bit­beini og að áhersla verði lögð á að regl­urnar séu fáar og almenn­ar. Með umræðum um siða­reglur þok­ist málin í átt að nið­ur­stöðu sem almenn sátt geti verið um. 

Siða­nefndir óþarfar í full­komnum heimi

„Í full­komnum heimi þarf ekki siða­nefndir heldur bara almenn við­mið til að umræðan þok­ist í ein­hverja góða átt. Í ófull­komnum heimi þarf stundum siða­nefnd,“ segir hann. Sig­urður telur jafn­framt að sem flestir þing­menn þurfi að taka þátt í að skapa ferlið – vegna þess að það sé sann­ar­lega sam­fé­lags­sátt­máli. 

„Heppi­leg­ast væri að hafa siða­nefnd­ina án tengsla við stjórn­mál­in, þá koma síður upp van­hæfn­is­spurn­ing­ar,“ segir hann. Þá sé mik­il­vægt að for­sætis­nefnd mati ekki siða­nefnd, að hún hafi frjáls­ara umboð – það er taki við kvört­unum og setji sér sjálf starfs­reglur sem þingið stað­festi. „Von­andi skilar hún sér þessi vinna sem fram framundan er,“ segir hann að lok­um.

Krafa um endurskoðun siðfræði í stjórnmálum eftir hrunið

Frá bankahruni árið 2008 hefur verið uppi hávær krafa um að endurskoða siðfræði í viðskiptalífi og pólitík á Íslandi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem kom út árið 2010, kemur fram að í störfum fagstétta sé siðferði svo samofið góðum starfsháttum að þar verði ekki sundur skilið. „Það eru því náin tengsl á milli siðferðis og starfshátta, og þegar rætt er um siðferði til að mynda í viðskiptum og stjórnmálum eru starfshættir fólgnir í því. Vandaðir og viðurkenndir starfshættir á þessum sviðum mynda þá viðmið fyrir gagnrýna siðferðilega greiningu. Þetta er stundum nefnt innri gagnrýni vegna þess að viðmiðin eru vaxin úr þeim veruleika sem til skoðunar er. Spurt er hvort menn efni þau loforð sem hugmyndir um fagmennsku, vandaða starfshætti, lýðræðislega stjórnarhætti og góða viðskiptahætti fela í sér. Vandaðir eða góðir stjórnsiðir einkennast til að mynda af því að embættismenn og kjörnir fulltrúar gegna skyldum sínum af heilindum og samviskusemi.“

Enn fremur kemur fram í skýrslunni að á opinberum vettvangi þurfi siðferðileg hugsun öðru fremur að lúta viðmiðum um almannahagsmuni enda beri almannaþjónum að efla þá og vernda gegn hvers konar sérhagsmunum. Það sé einkenni siðferðilegrar hugsunar að hún meti gæði þeirra markmiða sem stefnt er að. Tæknileg hugsun aftur á móti snúist um að velja áhrifaríkustu leiðirnar að völdu markmiði óháð því hvert það er. Siðferðileg hugsun hafi átt erfitt uppdráttar, meðal annars vegna þess að ákveðið viðmiðunarleysi hafi verið ríkjandi um ágæti markmiða og vantrú á rökræðu um þau. Slík afstaða búi í haginn fyrir að sérhagsmunir þrífist á kostnað almannahagsmuna en það sé eitt megineinkennið á því hugarfari sem ríkti hérlendis í aðdraganda bankahrunsins.

Útkoma skýrslunnar var ótvíræð: „Niðurstaða vinnuhópsins er að starfsháttum og siðferði var víða ábótavant í íslensku samfélagi og að sú staðreynd sé hluti af margþættum skýringum á því hve illa fór. Þetta á við jafnt í stjórnmálum og viðskiptalífi sem í stjórnsýslu og fjölmiðlum.“ Þar að auki segir að skýrslan sýni í hnotskurn að brýn þörf sé fyrir siðvæðingu á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi. Þótt margir einstaklingar hafi vissulega gerst sekir um ámælisverða hegðun og á því þurfi að taka með viðeigandi hætti, sé varasamt að einblína á þá. Frá siðferðilegu sjónarmiði sé til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þurfi viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund. Styrkja þurfi skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal borgaranna um sameiginleg hagsmunamál sín. Leggja þurfi áherslu á réttnefnda samfélagsábyrgð og hamla gegn sérhagsmunaöflum og þröngri einstaklingshyggju. Siðvæðing íslensks samfélags ætti einkum að beinast að því að styrkja þessa þætti og það sé langtímaverkefni sem krefst framlags frá fólki á öllum sviðum samfélagsins.

Siða­reglur eiga að vera leið­bein­andi

Jón Ólafs­son, pró­fessor við Hug­vís­inda­svið Háskóla Íslands og fyrr­ver­andi for­maður Gagn­sæ­is, telur að siða­reglur hafi tví­þættan til­gang. „Í fyrsta lagi eiga þær að vera leið­bein­andi fyrir fólk um rétt við­brögð við aðstæðum og álita­málum sem koma upp og í öðru lagi eiga þær að bæta og skýra mæli­kvarða um rétta og eðli­lega hegðun og fram­komu á vinnu­stað, innan fags­viðs eða hóps o.s.frv.,“ segir hann í sam­tali við Kjarn­ann. 

Þess vegna sé mik­il­vægt að sem flestir komi að bæði upp­haf­legri gerð siða­reglna og end­ur­skoðun þeirra sem þurfi að ger­ast reglu­lega. Þriðji til­gang­ur­inn, að hafa skýrar reglur sem hægt er að úrskurða eftir er að hans mati oft­ast síður mik­il­væg­ur.

Stjórn­sýslan hefur enga siða­nefnd

Varð­andi til­gang siða­nefnda, þá segir Jón að hann sé oft sá að hafa nefnd sem er fengið það hlut­verk að úrskurða um hvort siða­reglur hafi í ein­stökum til­fellum verið brotn­ar. „Því fer hins vegar fjarri að siða­nefndir séu alltaf skip­aðar þegar settar eru siða­regl­ur. Stjórn­sýslan hefur til dæmis ekki neina siða­nefnd. Umboðs­maður Alþingis lítur meðal ann­ars til siða­reglna þegar hann fjallar um mál í stjórn­sýsl­unni en hvorki hann né nokkur annar aðili fellir beina úrskurði um hvort siða­reglur hafi verið brotnar í ein­stökum til­fell­u­m.“

Hann bendir á að það sé mjög mis­jafnt hvort við­ur­lög séu nauð­syn­leg eða mögu­leg. Hans skoðun sé sú – og segir Jón að hann sé ekki einn um hana – að betra sé að almennar siða­reglur séu ekki hugs­aðar þannig að þeim fylgi ein­hver sér­stök við­ur­lög. Sé nauð­syn­legt að setja reglur sem hafa við­ur­lög sé betra að hafa þær mjög skýrar og aðskildar frá almennum siða­regl­um.

Jón Ólafsson
Aðsend mynd

Má efast um gildi úrskurðar

Jón telur að siða­reglur geti verið mjög vanda­samar í við­kvæmum mál­um, eins og Klaust­ur­mál­inu, ef hugs­unin á bak við þær sé sú að aðal­málið sé að fá ein­hvers­konar óháðan úrskurð um brot þegar kært er eða bent á þær kunni að hafa verið brotn­ar.

„Í Klaust­ur­mál­inu hög­uðu nokkrir þing­menn sér þannig að það var til hábor­innar skammar og hneyksl­aði almenn­ing. Eng­inn ágrein­ingur var um að slík hegðun væri sið­ferði­lega ámæl­is­verð. Þegar siða­nefnd úrskurðar svo mörgum mán­uðum síðar að sumir í hópnum telj­ist alls ekki hafa brotið siða­reglur þings­ins lítur það óhjá­kvæmi­lega þannig úr í augum margra að þar með hafi það sem þeir gerðu – eða létu ógert – ekki verið sið­ferði­lega ámæl­is­vert. Hér má efast um gildi úrskurð­ar­ins og almennt um notkun á siða­reglum sem felur í sér þrönga, jafn­vel laga­tækni­lega túlkun þeirra,“ segir hann. 

Nýleg mál ættu að vekja fólk til umhugs­unar

Jón álítur að þessi tvö umdeildu mál, þeirra Þór­hildar Sunnu og þing­mann­anna á Klaustur bar, ættu að vekja fólk til umhugs­unar um hvort úrskurð­ar­nefndir séu besta leiðin til að beita siða­regl­um. „Ég sé frekar fyrir mér að slík siða­nefnd hafi leið­bein­ing­ar- og ráð­gjaf­ar­hlut­verk. Siða­regl­urnar sjálfar ættu að vera reglu­legt umræðu­efni Alþingis frekar en að spurn­ingin sé alltaf sú að koma eigi í veg fyrir að fólk brjóti þær.“ 

Hann segir að í heimi þröngrar siða­reglutúlk­unar sé alltaf hægt að koma and­styggi­legri hegðun og fram­komu við aðra fyrir þannig að form­lega séu engar siða­reglur brotn­ar. En slíkur smugu­hugs­un­ar­háttur – þar sem leitað er að smugum í reglum – sé full­kom­lega and­stæður hugs­un­inni á bak við siða­regl­ur. Hugs­unin sé fyrst og fremst sú að gera fólk með­vit­aðra um sið­ferði­legar hliðar hegð­un­ar, fram­komu og breytni og auka áhug­ann á sam­eig­in­legum sið­ferði­legum mæli­kvörð­um.

Frétta­skýr­ingin birt­ist einnig í Mann­lífi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar