Nýtt snjallforrit, eða app, til að greiða fyrir að leggja bílum á gjaldskyldum svæðum í miðborg Reykjavíkur hefur litið dagsins ljós, Parka appið. Hingað til hafa tvö snjallforrit boðið upp á þjónustu til að leggja bílum en það er Síminn Pay og appið Leggja sem keypt hefur verið af sænska bílastæðalausnafyrirtækinu EasyPark. Parka appið hefur í för með sér ýmsar nýjungar, þar á meðal verða notendur ekki rukkaðir um þjónustugjöld.
Ætla afla tekna með öðrum leiðum
Parka er fyrirtæki sem nýsköpunarfyrirtækið Computer Vision stofnaði í samstarfi við Sýn hf. Parka appið á að einfalda það að leggja í gjaldskyld svæði með því að muna staðsetningu á bílnum, sýna greiðslusvæði á korti og senda fríar áminningar um að skrá bílinn úr stæði. Í gegnum appið er hægt að greiða fyrir bílastæði í miðbæ Reykjavíkur, Höfðatorgi, Skaftafelli í Vatnajökulsþjóðgarði og á Þingvöllum.
Enn fremur mun appið ekki rukka notendur um þjónustugjöld eða önnur aukagjöld sem fyrirtækið segir að sé nýmæli á markaðnum í dag. Þess í stað stefnir fyrirtækið á að afla tekna með öðrum hætti, með nýjum lausnum sem verða kynntar á næstu dögum. Leggja appið rukkar 95 króna þjónustugjald fyrir hvert skipti sem bíl er lagt en einnig er hægt að greiða fast mánaðargjald.
„Við höfum fulla trú á því að geta aflað tekna með öðrum leiðum og sjáum ýmis tækifæri sem verða kynnt betur á næstunni. Við erum nýsköpunarfyrirtæki sem hugsar í lausnum og setjum notandann í fyrsta sæti. Parka er ætlað að auðvelda þér lífið og verða eins sjálfvirkt og hægt er. Draumurinn okkar er að þegar þú ekur inn á bílastæði að þá þurfir þú ekki einu sinni að taka upp appið. Þessa lausn munum við frumreyna í Hafnartorgi,“ segir Ægir Finnsson, tæknistjóri Parka.
EasyPark kaupir Leggja
Leggja var stofnað árið 2008 af hugbúnaðarfyrirtækinu Stokki og var keypt af Já hf. árið 2017. Fyrirtækið greindi frá því í gær að sænska bílstæðaþjónustufyrirtækið EasyPark hefði keypt Leggja. EasyPark býður í dag upp á bílastæðalausnir í yfir 1300 borgum í 18 löndum.
Með kaupum EasyPark á Leggja verður viðskiptavinum boðið upp á að nýta sömu þjónustu víðar, sem á að auðvelda landsmönnum að leggja í útlöndum og sömuleiðis ferðamönnum að leggja hérlendis.
„EasyPark er leiðandi á þessu sviði með lausn og þjónustu í stöðugri þróun sem Íslendingar munu njóta góðs af. Þetta er því mjög spennandi breyting fyrir viðskiptavini Leggja.” er haft eftir Vilborgu Helgu Harðardóttur, forstjóri Já, í fréttatilkynningu Leggja.
Síminn Pay hefur einnig boðið uppá sömu þjónustu og Leggja um nokkra hríð auk þess að vera almenn greiðslu- og lánalausn.