Samdráttur á íbúðamarkaði í ár er töluvert minni en áður var talið. Á fyrstu tíu mánuðum ársins hefur kaupsamningum um stakar eignir fækkað samtals um 4 prósent á landinu öllu, þar af um 5 prósent á höfuðborgarsvæðinu og 3 prósent í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og á Akureyri en hins vegar fjölgað um 1 prósent á minni þéttbýlissvæðum.
Á hinn bóginn var októbermánuður stærsti einstaki mánuður frá upphafi í hreinum nýjum íbúðalánum heimilanna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Ný íbúðalán 22,2 milljarðar í október
Fasteignamarkaðurinn var heldur líflegri í haust heldur en í lok sumars. Hrein ný íbúðalán til heimila námu alls um 22,2 milljörðum króna í október síðastliðnum og mældust 36 prósent hærri en í september og 44 prósent hærri en í október í fyrra. Frá sama tímabili í fyrra hafa heildarfjárhæðir nýrra íbúðalána heimilanna, að frádregnum umfram- og uppgreiðslum eldri lána, aukist um 1,3 prósent að nafnvirði.
Í skýrslunni segir að þennan útlánavöxt í október megi að mestu leyti rekja til mikillar aukningar í hreinum nýjum óverðtryggðum útlánum lífeyrissjóðanna. Ástæður þeirrar aukningar sé þó ekki hægt að rekja beint til aukinnar aðsóknar til nýrra lána lífeyrissjóðanna í októbermánuði einum og sér heldur þess að eitthvað hefur verið um að lífeyrissjóðir hafi gert átak í því að hreinsa upp í þeim umsóknarstöflum sem myndast höfðu frá því í sumar/haust.
Því sé hér fyrst og fremst um að ræða einskiptisaðgerðir ákveðinna stórra lífeyrissjóða en ekki stökkbreytingar í umsóknum nýrra lána.
Á þessu ári hefur samsetning lána tekið stakkaskiptum því óverðtryggð lánhafa vaxið um nær 30 prósent á milli ára en á móti vegur að hrein ný verðtryggð lán drógust saman um 37 prósent á verðlagi hvors árs. Þá virðist hlutdeild lífeyrissjóða á íbúðalánamarkaði hafa aukist lítillega.
Verðhækkanir meiri utan höfuðborgarsvæðisins
Verðhækkun í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og á Akureyri tók fram úr heildarverðhækkunum á höfuðborgarsvæðinu í vor miðað við janúar 2012 og hefur haldist á svipuðum slóðum á undanförnum mánuðum.
Samkvæmt nýjustu tölum Íbúðalánasjóðs mælist 12 mánaða hækkunartaktur vísitölunnar á höfuðborgarsvæðinu rétt tæplega 1,4 prósent en 4,5 prósent í nágrannasveitarfélögum og á Akureyri en nálægt 10 prósent á minni þéttbýlissvæðum og dreifbýli, en þær tölur eru mjög sveiflukenndar vegna fárra samninga.
Þá er í raun 1,6 prósent raunlækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sé ekki tekið tillit til áhrifa nýbyggðra íbúða á íbúðaverð en það er í takt við þróunina undanfarna 6 mánuði sem hefur verið á bilinu 0,8 til 1,8 prósent raunverðslækkun.
Þá kemur enn fremur fram í skýrslunni að aðeins ein af hverjum tuttugu seldum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu fóru á 30 milljón krónur eða minna í ár. Árið 2015 átti það við um tæpan þriðjung seldra íbúða og árið 2012 átti það við yfir helming íbúða þótt miðað sé við fast verðlag.