Fulltrúadeild Bandaríkjanna hefur samþykkt að ákæra Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir embættisbrot. Þetta er í þriðja skiptið í sögunni sem þetta gerist.
Verði hann fundinn sekur um það sem hann er sakaður um, mun hann verða settur af sem forseti Bandaríkjanna, en ólíklegt þykir að það gerist þar sem Repúblikanar eru taldir líklegir til að styðja Trump og koma í veg fyrir að hann missi embættið.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 19, 2019
Atkvæði fóru eftir flokkslínum en báðar ákærurnar voru samþykktar á grundvelli meirihluta Demókrata. Fyrri ákæran, hvað varðar misnotkun valds, var samþykkt með 230 atkvæðum gegn 197. Tveir demókratar, greiddu atkvæði gegn því að ákæra Trump, og einn sat hjá. Sú síðari, að standa í vegi þingsins varðandi rannsókn fulltrúadeildarinnar, var samþykkt með 229 atkvæðum gegn 198.
Ákærurnar fara nú til öldungadeildarinnar þar sem haldin verða réttarhöld, en þar eru Repúblikanar með meirihluta. Forseti hæstaréttar Bandaríkjanna mun starfa sem dómari yfir réttarhöldunum.