Margt bendir til þess að árið 2019 verði eitt besta ár á hlutabréfamörkuðum frá upphafi.
Ef ávöxtun þessa viðskiptadaga ársins verður í takt við þróun undanfarinna mánaða þá verður um að ræða besta ár á hlutabréfamörkuðum frá því að viðspyrnan kom á flestum mörkuðum heimsins, árið 2009, eftir hremmingarnar og hrunið á árunum 2007 til byrjun árs 2009.
Í umfjöllun Bloomberg segir, að árið 2019 hafi verið gott á nær alla mælikvarða, og flestir eignaflokkar verðbréfa og hrávöru, sýndu jákvæða þróun.
Stærstu fyrirtæki heimsins, sé horft til markaðsvirðis, Microsoft og Apple, hafa hækkað um meira en 60 prósent á árinu, og svipaða sögu er að segja af mörgum stærri fyrirtækjum.
Algengt er að hlutabréfavísitölur í heiminum hafi hækkað um tugi prósent á árinu, en í sögulegu samhengi telst það verulega mikið.
Árið á markaðnum á Íslandi hefur einnig verið nokkuð gott, í sögulegu samhengi. Vísitala skráða markaðarins hefur hækkað um rúmlega 32 prósent á árinu, en allt annað var uppi á teningnum í fyrra þegar lítil sem engin ávöxtun var á markaði og mörg félög lækkuðu.