Arctic Adventures hf. og framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund I (ITF) hafa gengið frá samkomulagi um sameiningu Arctic Adventures og Into the Glacier ehf. Í kjölfarið verður til stórfyrirtæki með yfir 400 starfsmenn sem sinnir ferðatengdri afþreyingu í öllum landshlutum. Þá er stefnt að því að skrá sameinaða félagið á hlutabréfamarkað innan tveggja ára. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum.
Kaupir hlut í fjórum afþreyingarfyrirtækjum
Samanlögð velta Into the Glacier og Artic Adventures á árinu 2019 er um 7 milljarðar króna. Into the Glacier er ferðaþjónustufyrirtæki sem býður upp á ferðir inn í ísgöngin í Langjökli sem eru stærstu manngerðu ísgöng í heimi. Hátt í 60 þúsund manns hafa heimsótt ísgöngin á árinu.
Artic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtækið á Íslandi þegar kemur að afþreyingartengdri ferðaþjónustu. Á árinu 2019 voru viðskiptavinir fyrirtækisins um 250 þúsund.
Samhliða sameiningunni kaupir Arctic Adventures hluti ITF í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu: Óbyggðasetri Íslands í Fljótsdal, Raufarhóli ehf., Skútusiglingum ehf. á Ísafirði og Welcome Entertainment ehf.
Í tilkynningunni segir að kaupverðið greiðist með hlutum í Arctic Adventures hf., sem þýði að ITF verður eftir viðskiptin stór hluthafi í sameinaða félaginu. Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að félögin fjögur verði áfram rekin sjálfstætt en í nánu samstarfi við Arctic Adventures.
Stefna á hlutabréfamarkað innan tveggja ára
Icelandic Tourism Fund er framtakssjóður rekinn af Landsbréfum, stofnaður að frumkvæði Icelandair Group árið 2013. Markmiðið með stofnun sjóðsins var að fjárfesta í uppbyggingu afþreyingartengdrar ferðaþjónustu á Íslandi.
Helgi Júlíusson, framkvæmdastjóri ITF segir að sameiningin sé fagnaðarefni fyrir íslenska ferðaþjónustu: „Við getum nýtt krafta félaganna enn betur, náum fram umtalsverðri hagræðingu og aukum slagkraftinn til muna þegar kemur að sölu og markaðssetningu. Arctic Adventures hefur mjög sterka stöðu á markaði fyrir afþreyingartengda ferðaþjónustu. Sú staða styrkist enn frekar í kjölfar þessara viðskipta og getur fyrirtækið nú boðið upp á fyrsta flokks afþreyingu í öllum landshlutum.“
Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures, segir samkeppnisstaða fyrirtækisins styrkist í kjölfar sameiningarinnar. „Það skiptir mjög miklu að geta boðið ferðafólki fjölbreytta afþreyingu. Við sjáum enn frekari tækifæri til vaxtar á næstu misserum og stefnum ótrauð að skráningu á hlutabréfamarkað innan tveggja ára.“ segir Styrmir Þór.