Forseti Evrópuráðsþingsins, Liliane Maury Pasquier, hefur svarað erindi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Ásmundar Friðrikssonar, en hann vakti nýlega athygli á því við forseta þingsins að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefði gerst brotleg við siðareglur alþingismanna, fyrst þingmanna hér á landi.
Þórhildur Sunna birtir svarbréfið á Facebook-síðu sinni í dag og segir hún meðal annars í stöðuuppfærslu að hún hafi verið ófeimin við að upplýsa kollega sína í Evrópuráðsþinginu um siðaregluúrskurðinn allt frá því að hann féll. „Enda um brot á mínu tjáningarfrelsi að ræða,“ skrifar hún.
Í bréfi Pasquier segir að eftir að hafa farið yfir þær upplýsingar sem liggja fyrir um álit siðanefndar Alþingis þá sé „alls ekkert sem bendi til þess að um spillingu sé að ræða eða brot á sérstökum reglum Evrópuráðsþingsins“ af hendi Þórhildar Sunnu sem ætti að heimila frekari athuganir þingsins eða forseta.
Ásmundur sagðist ekki fara fram á að þingið gripi til aðgerða
Þórhildur Sunna segir í færslu sinni á Facebook að alveg eins og við hafi verið búast að þá sé einmitt ekki bannað að benda á spillingu í Evrópuráðsþinginu. „Loks get ég líka sýnt fram á þau ósannindi sem Ásmundur hélt fram á Bylgjunni í gær um að hann hafi ekki farið fram á viðurlög gegn mér. Það er lygi. Hann vildi bæði að ég yrði svipt réttindum og að ég yrði jafnvel rekin úr Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins. Eins og meðfylgjandi bréf sýna,“ skrifar hún.
Ásmundur sagði í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í vikunni að hann hefði kallað eftir því að Þórhildur Sunna myndi sjálf upplýsa Evrópuráðsþingið um að hún hefði verið fundin sek um brot á siðareglum Alþingis. Það hefði hún ekki gert og því hefði hann sent bréfið til forseta Evrópuráðsþingsins.
Lagði til tímabundinnar sviptingar réttinda
Hann sagði jafnframt að hann myndi ekki fara fram á að þingið grípi til einhvers konar aðgerða gegn Þórhildi Sunnu. Í erindi Ásmundar til Pasquier segir aftur á móti að það sé hans skoðun að taka ætti til skoðunar hvort brot Þórhildar Sunnu á siðareglum Alþingis ættu að sæta viðurlögum, til að mynda tímabundinnar sviptingar réttinda á vettvangi Evrópuráðsþingsins.
Þórhildur Sunna segir að hans auma afsökun „fyrir þessu tilgangslausa klögubréfi sínu“ sé því ekki sönn.
„Þó Ásmundur hafi ekki hugmynd um hvað ég er að gera í Evrópuráðsþinginu þýðir það ekki að hann megi bara fabúlera eitthvað út í loftið til þess að reyna að réttlæta þann augljósa hefndarhug sem liggur að baki þessu bréfi sem hann skrifaði,“ skrifar hún.
Jæja, þá er svarið frá forseta Evrópuráðsþingsins komið. Alveg eins og við var að búast að þá er einmitt ekki bannað að...
Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Friday, December 20, 2019