Mikið vantraust einkennir stjórnmálin í Bretlandi og Bandaríkjunum þessi misserin. Fjármálakreppan fyrir rúmum áratug hefur þar mikið að segja.
Þetta er til umfjöllunar í ítarlegri grein sem Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor, skrifar í nýjustu útgáfu Vísbendingar, þar sem farið er yfir stöðu mála eftir sögulegan kosningasigur Íhaldsflokksins í Bretlandi og einnig dínamískt ástanda í stjórnmálum í Bandaríkjunum.
Í greininni segir meðal annars:
„Ástæður vantraustsins eru margvíslegar. Hér kemur fyrst í huga misskipting tekna og auðs innan lands en auðlegð Lundúnaborgar sker í augu þeirra sem búa í Norður Englandi við krappari kjör. Hægur kaupmáttarvöxtur bætir ekki úr skák. Kaupmáttur lækkaði frá fjármálakreppunni 2008 fram í lok árs 2014 og hefur aðeins hækkað lítillega síðan.
Aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnar sem komst til valda um vorið 2010 bitnuðu illilega á fátækustu héruðum Englands og urðu þannig til þess að magna óánægjuna enn meira. Og margir óttast að innflytjendur ógni menningu og siðum innfæddra og innflytjendur taki jafnvel störfin af þeim sem eru fyrir. Til samans verður þetta til þess að kjósendur treysta ekki lengur stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem eru á miðju stjórnmálanna fyrir hagsmunum sínum.
Við þetta bætist að aukin alþjóðaviðskipti og tækniframfarir ógna störfum, þau verða þá mörg mögulega flutt til annarra landa í framtíðinni eða lögð af með bættri tækni. Ótti fólks við framtíðina hefur aukist.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hérna.