Forstjóri Boeing, Dennis Muilenberg, hefur verið rekinn. New York Times greindi frá þessu í dag. David Calhoun hefur tekið við af honum.
Ástæðan er fyrst og síðast ábyrgðin sem forstjórinn ber á vandræðagangi Boeing og alvarlegum hönnunargöllum í framleiðslu hjá félaginu, meðal annars á 737 Max vélunum, en talið er að gallar í búnaði vélanna hafi verið orsökin fyrir því að tvær slíkar vélar toguðust til jarðar, í Indónesíu og Eþíópíu, með þeim afleiðingum að 346 létust, allir um borð.
Niðurstöður rannsóknarnefndar í fyrra slysinu, sem varð 29. október í Indónesíu, var sú að gallar í MCAS kerfi vélarinnar, sem á að sporna gegn ofrisi, hafi leitt til þess að vélin togaðist til jarðar með skelfilegum afleiðingum. Þá komst rannsóknarnefndin enn fremur af því að Boeing hefði reynt að hylma yfir galla í vélunum.
BREAKING: Boeing CEO and Chairman of the Board Dennis Muilenburg resigns from the troubled U.S. planemaker https://t.co/I9F1FgRxIt pic.twitter.com/S2kIPTgirK
— Bloomberg (@business) December 23, 2019
Ennþá er verið að rannsaka seinna slysið í Eþíópíu, en samkvæmt frumniðurstöðum er talið að orsökin hafi verið sú sama og í slysinu í Indónesíu.
Bandaríkjaþing hefur framferði Boeing til rannsóknar, og það sama á við um alríkislögregluna FBI.
Boeing er stærsta útflutningsfyrirtæki Bandaríkjanna, og stærsti flugvélaframleiðandi heims. Þá er félagið einn stærsti hergagnaframleiðandi heimsins, og framleiðir auk þess vélaparta fyrir flug- og geimiðnað.
Alþjóðleg kyrrsetning á 737 Max vélunum hefur haft miklar afleiðingar fyrir Boeing, viðskiptavini þess og jafnvel heilu þjóðríkin, eins og í tilfelli Íslands. Icelandair hefur lent í miklum hremmingum vegna kyrrsetningarinnar á Max vélunum, en ekki liggur fyrir hvenær henni verður aflétt. Gert er ráð fyrir að það verði ekki fyrr en á vormánuðum næsta árs, en óvissa ríkir þó um það.