Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir það vera lykilatriði að ákæruvaldið sé sjálfstætt. „Með sjálfstæði á ég við að það séu engin utanaðkomandi öfl, peningaöfl eða pólitísk sem hafi áhrif á afgreiðslur sakamála. Það er mjög mikilvægt. Stærsti þátturinn í sjálfstæði ákæruvaldsins er að það hafi peninga til að sinna þeim verkefnum sem ákæruvaldið á að sinna. Besta leiðin til að skerða sjálfstæði ákæruvaldsins og skerða getu þess til að rannsaka og saksækja mál er að passa upp á að það hafi ekki næga peninga. Það er ósköp einfalt.“
Þetta er meðal þess sem kom fram í ítarlegu viðtali Kjarnans við Helga Magnús sem birt var á annan í jólum.
Gefið í og dregið úr
Hrunmálin, þ.e. sakamálin sem urðu vegna bankahrunsins, voru sótt af miklum krafti og mörg þeirra skiluðu þungum dómum yfir þeim sem sátu á sakamannabekk í þeim. Í miðri á, þ.e. árið 2013, var hins vegar ráðist í mikinn niðurskurð á framlögum til embættis sérstaks saksóknara, sem gerði það meðal annars að verkum að embættið gat ekki klárað rannsókn á mörgum málum tengdum hruninu.
Nýlega, þegar Samherjamálið svokallaða kom upp á yfirborðið, varð svo harðvítug pólitísk umræða um hvers konar fjárheimildir embætti héraðssaksóknara, sem sinnir nú efnahagsbrotarannsóknum, þyrfti til að geta tekist á við það. Í minnisblaði sem Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sendi til dómsmálaráðuneytisins í nóvember kom fram að um hundrað mál biði rannsóknar hjá embættinu og að núverandi starfsmannafjöldi dygði ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem það þarf að takast á við að óbreyttu, hvað þá viðbótarmálum af stærra umfangi. Meiri fjármuni þyrfti til.
Ómöguleg staða bæði fyrir ákæruvaldið og stjórnmálamenn
Helgi Magnús segir þetta einfaldlega ómögulega stöðu að vera í að pólitísk kjörinn ráðherra sé að veita sérstaklega fjárheimildir til rannsókna eða saksókna á tilteknum málum. „Í okkar smáa og fámenna kerfi koma reglulega upp stór mál sem setja alla verkefnastöðu á hliðina. Ef slík mál eiga að fá fullnægjandi framgang innan eðlilegs tíma þarf oft tímabundið að fjölga starfsmönnum og kosta meiru til einnig vegna annarra mála sem annars geta lent á bið. Til þess þarf að tryggja peninga og fjárveitingavaldið er hjá Alþingi en oftast með milligöngu ráðherra sem gera tillögur um fjárútlátin. Slíkar ákvarðanir um fjárútlát í einstökum málum eru óheppilegar. Í fyrsta lagi býður þetta upp á það að, ef við værum með þannig stjórnmálamenn að þeir vilji hafa áhrif á niðurstöðu stórra efnahagsbrotamála gegn fjársterkum aðilum sem gætu verið tengdir þeim á einhvern hátt, að þeir vilji nú kannski ekkert að þetta eða hitt málið fái framgang. Þetta býður líka heim þeirri hættu að stjórnmálamenn eru settir í þá aðstöðu að trúverðugleiki þeirra er alltaf undir.“
Helgi Magnús segist hafa rætt þessi mál við ríkissaksóknara á hinum Norðurlöndunum á fundi þeirra fyrir nokkrum árum þar sem sjálfstæði ákæruvaldsins var til umfjöllunar og hvort framgangur einstakra stórra mála ráðist af sérstökum fjárheimildum sem veittar eru utan hins venjulega ramma fjárlaga. Í máli þeirra hafi komið fram að þar væri ætið svigrúm innan ákæruvaldsins til að færa til fé þegar það þarf á því að halda þegar einhver stórmál koma upp.