Stjórn Gildis lífeyrissjóðs ákvað í síðasta mánuði að setja 60 milljón króna hámark á sjóðsfélagslán. Áður var ekkert þak á þeirri upphæð sem sjóðurinn lánaði til sjóðsfélaga.
Um er að ræða enn eitt skrefið sem þessi þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins hefur stigið til að hemja útlán sín til íbúðarkaupa. Stórt skref var stigið í þá átt í upphafi árs í fyrra þegar Gildi ákvað að þrengja lánaskilyrði sín umtalsvert. Þá var meðal annars veðhlutfall sjóðsfélagslána lækkað niður í 70 prósent, og fylgdi Gildi þar með í spor hinna tveggja stóru lífeyrissjóða landsins, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Ástæðan fyrir þessum aðgerðum er sú að sjóðsfélagalán Gildis hafa aukist mjög skarpt á undanförnum árum. Í árslok 2015 voru þau 2,2 milljarðar króna en höfðu tífaldast í lok árs 2018 og voru orðin 22 milljarðar króna. Þar af bættust 9,2 milljarðar króna, eða rétt tæpur helmingur viðbótarinnar, við á árinu 2018. Fjöldi veittra lána jókst líka mjög hratt og fór úr því að vera 230 árið 2015 í að vera 1.366 allt árið 2018.
Lægstu vextir sem Gildi býður nú eru á verðtryggðum breytilegum lánum, en þeir eru 2,46 prósent ef viðkomandi tekur 70 prósent lán. Sjö lífeyrissjóðir bjóða sínum sjóðsfélögum upp á betri vexti en það. Lægstu vextirnir sem eru í boði í þeim lánaflokki eru hjá Birtu, 1,64 prósent, en þar er hámarkslánið reyndar 65 prósent af kaupverði.
Samhliða því að hámark var sett á útlán hjá Gildi var tekin ákvörðun um að lækka vexti á óverðtryggðum grunn-sjóðsfélagalánum úr 5,2 prósent í 5,1 prósent, en þau eru veitt upp að 60 prósent veðhlutfalli. Í ljósi þess að verðbólga mælist nú einungis tvö prósent er staðan þó þannig að verðtryggðu lánin sem sjóðurinn veitir eru hagstæðari eins og staðan er í dag.
Verzlunarmenn hafa haldið vöxtum óbreyttum í fimm mánuði
Lífeyrissjóður verzlunarmanna, næst stærsti lífeyrissjóður landsins, hefur líka gripið til aðgerða til að hamla lántöku hjá sér. Hann hefur nú haldið breytilegum verðtryggðum vöxtum sínum óbreyttum frá því í ágústbyrjun, eða í fimm mánuði. Þá var ákveðið að breyta því hvernig vextirnir væru ákveðnir og fallið frá því að láta ávöxtun ákveðins skuldabréfaflokks ráða þeirri för. Þess í stað er einfaldlega um ákvörðum stjórnar lífeyrissjóðsins að ræða, en ekki hefur verið greint frá því hvort hún byggi á einhverju öðru en einungis vilja þeirra sem í stjórninni sitja.
Frá því í nóvember 2018 og fram í maí 2019 lækkuðu breytilegir verðtryggðir vextir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna úr 2,62 prósent í 2,06 prósent, eða um 0,56 prósentustig. Þá tók stjórn sjóðsins ákvörðun um að frysta þá fram í ágúst og hækka þá svo upp í 2,26 prósent, þar sem þeir hafa verið síðan.
Í október ákvað sjóðurinn svo að breyta lánareglum sínum þannig að skilyrði fyrir lántöku voru verulega þrengd og hámarksfjárhæð lána var lækkuð um tíu milljónir króna. Auk þess var ákveðið að hætta að lána nýjum lántakendum verðtryggð lán á breytilegum vöxtum, en þau hafa verið einna hagkvæmustu lánin sem í boði hafa verið á undanförnum árum.
Þetta var gert með þeim rökum að sjóðurinn væri komin út fyrir þau þolmörk sem hann ræður við að lána til íbúðarkaupa. Frá haustinu 2015 og fram í októberbyrjun 2019 jukust sjóðsfélagslán úr því að vera sex prósent af heildareignum sjóðsins í að verða 13 prósent.
Alls námu sjóðsfélagalánin um 107 milljörðum króna í byrjun október 2019 og um 25 milljarðar króna til viðbótar voru sagðir vera að bætast við þá tölu þegar tekið væri tillit til fyrirliggjandi umsókna um endurfjármögnun.
Það voru einfaldlega ekki til lausir peningar til að halda áfram á sömu braut og lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði þurft að losa um aðrar eignir að óbreyttu til að þjónusta eftirspurnina eftir íbúðalánum. Það var stjórn hans ekki tilbúin að gera.
Lífeyrissjóðir lána meira en bankar
Frá því að lífeyrissjóðir landsins komu af fullum krafti inn á húsnæðislánamarkaðinn að nýju haustið 2015 hafa útlán þeirra til húsnæðiskaupa næstum þrefaldast. Þau voru 171,5 milljarðar króna í október 2015 en í sama mánuði fjórum árum síðar voru þau orðin 497,5 milljarðar króna.
Hjá innlánsstofnunum, bönkunum og sparisjóðum, hefur vöxturinn verið mun hægari. Þar eru langfyrirferðamestir stóru viðskiptabankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki.
Frá október 2015 og fram til sama mánaðar í fyrra jukust útlán bankanna til húsnæðiskaupa úr 733 milljörðum króna í 960 milljarða króna, að teknu tilliti til sölu Arion banka á 50 milljarða lánasafni til Íbúðalánasjóðs í haust.
Upphæð íbúðalána sem eru í eigu innlánsstofnana, þ.e. banka og sparisjóða, er því 31 prósent hærri í fyrrahaust en hún var fjórum árum áður.
Aukning þeirra hjá innlánsstofnunum var í krónum talið er 227 milljarðar króna. Á sama tíma hefur umfang lána lífeyrissjóða aukist um 326 milljarða króna, eða 99 milljörðum krónum meira en hjá bönkum og sparisjóðum.
Til viðbótar við þessar tvær tegundir lánveitendenda þá hefur Íbúðalánasjóður líka lánað húsnæðislán, en ekki á samkeppnishæfum kjörum.