Alls námu heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöll Íslands 612 milljörðum króna í fyrra. Langmest viðskipti voru með bréf í Marel, 118 milljarðar króna, og í Arion banka, 98 milljarðar króna. Samanlagt námu viðskipti með hlutabréf þessara tveggja verðmætustu félaga sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað því 216 milljörðum króna og voru 35,3 prósent af heildarviðskiptum með hlutabréf í henni á árinu 2019.
Hlutabréf í Marel voru tekin til viðskipta í Euronext-Kauphöllinni í Amsterdam í byrjun júlí og eru því tvískráð. Í aðdraganda skráningarinnar fór fram hlutafjárútboð hjá Marel þar sem félagið seldi 100 milljón nýja hluti. Þeir hlutir jafngilda 15 prósent af heildarhlutafé Marel. Arion banki er einnig tvískráður á markað, hérlendis og í Svíþjóð.
Alls varð veltuaukning upp á 21,3 prósent í fyrra, en heildarviðskipti á árinu 2018 voru 506 milljarðar króna. Heildarviðskiptin voru samt sem áður minni en þau voru árið 2017 þegar þau náðu hámarki sínu eftir bankahrun og voru 632 milljarðar króna.
Þetta má lesa úr viðskiptayfirliti fyrir árið 2019 sem Nasdaq Iceland, sem rekur íslensku Kauphöllina, hefur birt.
Flest félög hækkuðu í virði
Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 1.251 milljarður króna sem er 30 prósent hærra en í lok árs 2018. Í lok árs 2019 voru alls 24 félög skráð á markað, 20 á Aðalmarkað og fjögur á Nasdaq First North.
Marel hækkaði langmest allra félaga á árinu, eða um 65,9 prósent. Markaðsvirði félagsins í lok árs var 473,4 milljarðar króna. Ekkert annað félag í Kauphöllinni kemst nálægt því að vera svo verðmætt. Næst verðmætasta félagið er Arion banki sem metið er á 156,5 milljarða króna, en bréf í bankanum hækkuðu um 22,4 prósent á árinu 2019. Bréf í Símanum hækkuðu hlutfallslega næst mest, eða um 43,2 prósent.
Bréf alls 13 félaga sem skráð eru á Aðalmarkað hækkuðu á árinu og bréf í tveimur til viðbótar, í fasteignafélögunum Reitum og Eik, lækkuðu undir eitt prósent. Þau félög sem fóru verst út úr árinu og lækkuðu umtalsvert voru Hagar (virði bréfa lækkaði um 6,0 prósent), Sýn (virði bréfa lækkaði um 16,3 prósent), Eimskip (virði bréfa lækkaði um 16,9 prósent) og Icelandair Group, sem lækkaði mest allra eða um 21,2 prósent.
Ávöxtun talin góð
Í tilkynningu frá Nasdaq OMX er haft eftir Finnboga Rafni Jónssyni, forstöðumanni viðskipta, að Kauphöllin sé sátt með gang mála á árinu. „Ávöxtun á árinu var alveg sérstaklega góð, en Úrvalsvísitalan hækkaði um rúmt 31 prósent á árinu og heildarvísitalan um 24,5 prósent. Sama á við um skuldabréfamarkað þar sem vextir fóru á áður óþekktar slóðir og hækkaði sem dæmi óverðtryggða skuldabréfavísitalan um tæp 15 prósent. Velta á hlutabréfamarkaði jókst einnig töluvert á milli ára, eða um 21 prósent.“
Fasteignaþróunarfélagið Kaldalón var skráð á First North á árinu og Kvika banki og Iceland Seafood International færðu sig bæði frá First North yfir á Aðalmarkaðinn.