EPA

Hin harða barátta um sjónvarpið og internetið

Síminn fékk nýverið níu milljóna króna stjórnvaldssekt fyrir að hafa margbrotið ákvæði fjölmiðlalaga, með því að í raun vöndla saman sölu á interneti og sjónvarpi. Brotin voru sögð meðvituð, markviss og ítrekuð. Áhrif þeirra á markaðinn hafi verið skaðleg en ávinningur Símans af þeim hafi verið langt umfram sektina. Síminn er leiðandi á bæði sjónvarpsmiðlunar- og internetmarkaði og hefur styrkt stöðu sína verulega á skömmum tíma.

Það er hart barist á sjónvarps- og internetmarkaði á Íslandi. Tvö stærstu fyrirtækin sem þar takast á, Síminn og Sýn, bjóða bæði upp á umfangsmikla fjölmiðlastarfsemi, efnisframleiðslu og keypt vinsælt efni ásamt því að bjóða pípurnar til flytja efnið í sjónvarp, eða eftir atvikum önnur tæki, landsmanna. 

Samkvæmt nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um íslenska fjarskiptamarkaðinn, sem sýnir stöðuna eins og hún var um mitt þetta ár, er Síminn ráðandi þegar kemur að heildarfjölda þeirra áskrifenda fjarskiptafyrirtækja sem eru með sjónvarp yfir svokallað IP-net. Það þýðir að fleiri eru með myndlykla frá Símanum en helsta samkeppnisaðilum. Þar er markaðshlutdeild hans 59,1 prósent en Vodafone, sem tilheyrir Sýn-samstæðunni, er með 40,9 prósent.

Vöxtur í myndlyklum frá Símanum hefur haldist í hendur við mikla sókn Sjónvarps Símans, efnisþjónustu fyrirtækisins, á undanförnum árum. 

Líka stærstur í internettenginum

Þegar kemur að internettengingum þá er Síminn líka stærstur. Hlutdeild hans á markaði er 46,9 prósent sem er nánast sama hlutfall og verið hefur undanfarin ár. Fyrirtækinu virðist ganga ágætlega að bæta við sig þeim viðskiptavinum sem bætast við á hverju ári og halda stöðu sinni.

Vodafone er hins vegar að tapa hlutdeild milli ára og er nú með 32,3 prósent viðskiptavina sem kaupa internettengingar á Íslandi. Staða fyrirtækisins batnaði umtalsvert í lok árs 2017 þegar það tók yfir internetstarfsemi 365 og fékk með tæplega 15 þúsund viðskiptavini. Sú viðbót gerði það að verkum að fjöldi viðskiptavina Vodafone jókst um rúmlega 40 prósent frá miðju ári 2017 og fram á sama tíma í fyrra. Síðastliðið ár hefur þeim hins vegar fækkað um rúmlega fjögur þúsund auk þess sem fyrirtækinu hefur mistekist að höfða til þeirra viðskiptavina sem bæst hafa við markaðinn, en þeim fjölgaði um á þriðja þúsund milli ára. 

Nova seldi lengi vel ekki inter­net­þjón­ustu með öðrum hætti en í gegnum far­síma­kerfi. Á því varð breyt­ing á árinu 2016 þegar að fyr­ir­tæk­ið til­kynnti að það ætl­aði að hefja ljós­leið­ara­þjón­ust­u. Síðan þá hefur hlutdeild fyrirtækisins vaxið hratt. Hún var 3,3 prósent um mitt ár 2017 en 10,9 prósent í lok júní 2019. Alls fjölgaði þeim viðskiptavinum sem keyptu internetþjónustu hjá Nova um 50 prósent milli ára. 

Hringdu hefur líka komið sér ágætlega fyrir á internetmarkaðnum og er með 7,6 prósent hlutdeild, sem hefur haldist nánast óbreytt síðastliðin tvö ár

Síminn braut gegn ákvæðum laga

Það er kergja á þessum mörkuðum. Sérstaklega gagnvart Símanum, en keppinautar hans telja fyrirtækið brjóta vísvitandi ákvæði laga til að tryggja sér aukna markaðshlutdeild í bæði interneti og sölu á sjónvarpsþjónustu. Það geri hann með því að búa til vöndul úr vörunum tveimur.

Í lok nóvember síðastliðins lagði Póst- og fjarskiptastofnun níu milljóna króna stjórnvaldssekt á Símann fyrir að hafa ítrekað brotið gegn fjölmiðlalögum með því að hindra aðra aðila á markaði frá því að dreifa ólínulegu efni Sjónvarps Símans. 

Samkvæmt ákvæði þeirra laga á viðskiptavinur að geta keypt myndefni, eins og til dæmis Sjónvarp Símans, og fjarskiptafyrirtæki sem selur internetþjónustu eða miðlar sjónvarpsefni í gegnum net og myndlykil, án þess að binda sig til að kaupa bæði af sama fjarskiptafyrirtækinu. Þetta er gert til að fyrirtæki sem selja bæði efni og fjarskiptaþjónustu misnoti ekki aðstöðu sína með því að búa til svokallaðan vöndul úr báðu. Þ.e. vöru sem er samþætt sjónvarps- og fjarskiptaþjónusta.  

En nákvæmlega það er Símanum gefið að hafa gert. 

Mikill ætlaður ávinningur af brotinu

Það hafi hann meðal annars náð fram með því að fyrst stöðva dreifingu á slíku yfir á kerfi Vodafone í október 2015. Eftir þann tíma þurfti að vera með myndlykil frá Símanum til að geta keypt Sjónvarp Símans. Það þýddi að til að gerast áskrifandi að þeirri þjónustu þurfti að gera það í gegnum dreifikerfi Símans og að mestu leyti á neti Mílu, sem Síminn á að öllu leyti. 

Síðar, frá sumrinu 2018 eftir að Póst- og fjarskiptastofnun hafði sent frá sér úrskurð um að þetta væri óheimilt, er Síminn sagður hafa brotið af sér með því að gera viðskiptavinum samkeppnisaðila Símans mögulegt að nálgast sjónvarpsþjónustu Símans gegn því að leigja myndlykil af Símanum fyrir 2.200 krónur á mánuði og borga svo áskriftargjald að Sjónvarpi Símans ofan á það, en áskrift að svokallaðri Premium áskrift er í dag 6.000 krónur. 

Póst- og fjarskiptastofnun taldi brot Símans hafa verið meðvituð og markviss og sagði í úrskurði sínum að þau hafi haft umtalsverð skaðleg áhrif á fjarskiptamarkaðinn. Hámarkssekt sem stofnunin gat lagt á Símann fyrir brotin er tíu milljónir króna og því sýnir það að Póst- og fjarskiptastofnun nánast fullnýtti þann ramma hversu alvarlegt stofnunin telur brotið vera. Hún segir sömuleiðis í úrskurði sínum að ávinningur Símans af þeim brotum sem fyrirtækið framdi hafi verið langt umfram þær sektir sem hægt væri að leggja á það. Orðrétt segir í úrskurðinum: „Við ákvörðum um upphæð sektarinnar verður að horfa til alvarleika brotsins og þess ávinnings sem ætla má að Síminn hafi notið af brotinu og þess að um ítrekað brot er að ræða.“

Af þessu má ráða að það hafi margborgað sig fyrir Símann að brjóta gegn lögunum, þar sem hámarkssekt fyrir athæfið sem lög heimila var mun lægri en væntur ávinningur.

Síminn segir ákvörðunina óskiljanlega og hefur sagt að hann muni kæra niðurstöðuna til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.

Enski boltinn breytti stöðunni

Setja verður ofangreint í samhengi við það að gríðarlegur vöxtur hefur verið í sjónvarpsþjónustu Símans á undanförnum árum. Áskrifendur að Sjónvarpi Símans Premium, helstu áskriftarleið fyrirtækisins, hefur fjölgað gríðarlega á skömmum tíma. Þeir eru í dag taldir vera um 40 þúsund. 

Ein af árangursríkustu leiðunum sem Síminn hefur farið til að auka tekjur sínar af sjónvarpsþjónustu var sú að kaupa sýningarréttinn að enska boltanum í þrjú ár frá og með yfirstandandi tímabili. Greint var frá því að fyrirtækið hefði náð þeim samningi í nóvember í fyrra. Verðið sem Síminn greiddi fyrir að ná þessari vinsælu sjónvarpsvöru af sínum helsta keppinaut, Sýn, hefur aldrei verið gefið upp en samkvæmt upplýsingum Kjarnans bauð Síminn um 30 prósent hærra verð en keppinauturinn. Viðmælendur Kjarnans segja að kostnaðurinn við efniskaupin hafi aldrei verið undir einum milljarði króna.

Það lá hins vegar ekki strax fyrir hvernig Sím­inn ætl­aði að nýta sér þessa vöru sem hann hafði tryggt sér rétt­inn á, né hvort félag­inu tæk­ist að gera það með arð­væn­legum hætt­i. 

Hækkuðu áskriftina á alla

Sum­arið 2019 var loks sýnt á spil­in. Verð­inu á nýstofn­aðri Sím­inn Sport, sem myndi sýna leiki úr ensku úrvalsdeildinni, yrði stillt í hóf og stök áskrift seld á 4.500 krón­ur. Á sama tíma var hins vegar greint frá því að allir áskrif­endur að Sjón­varpi Sím­ans Premium, sem voru þá þegar 35 til 40 þús­und, myndu fá aðgang að enska bolt­an­um. Um leið var mán­að­ar­verðið fyrir þá þjón­ustu hækkað úr fimm þús­und krónum í sex þús­und krón­ur. 

Ef vel til tæk­ist, og eng­inn við­skipta­vinur myndi hætta í Premium áskrift vegna hækk­un­ar­inn­ar, myndi Sím­inn þegar vera búinn að tryggja sér 420 til 480 millj­ónir króna í við­bót­ar­tekjur á ársgrundvelli með henn­i. Hið minnsta.  

Í ljósi þess að nær ómögulegt er að vera með Sjónvarp Símans án þess að kaupa internetþjónustu að Símanum þá eru flestir viðskiptavinir fyrirtækisins með svokallaðan „Heimilispakka“, sem inniheldur internet, heimasíma, IPTV aðgang (myndlykil), Premium-pakkann og nokkrar erlendrar stöðvar. 

Á milli þess tíma sem Síminn keypti réttinn að enska boltanum og þess tíma sem áskrift að honum var bætt inn í Premium áskriftarleiðina var verðmiðinn á Heimilispakkanum hækkaður tvívegis, um samtals eitt þúsund krónur, annars vegar í byrjun mars 2019 og hins vegar í byrjun ágúst 2019. Langflestir Premium áskrifendur eru með þá áskrift í gegnum Heimilispakkann. 

Tekjur upp um 330 milljónir milli ára

Áhrifin af þessari breytingu á bæði Símann og Sýn hafa verið mikil. Þau komu fyrst almennilega fram á þriðja ársfjórðungi ársins 2019, eftir að enski boltinn fór að rúlla í ágústmánuði og hækkanir á bæði Heimilispakkaleið Símans og Premium-sjónvarpsáskrift tóku gildi.   

Í nýlegri fjárfestakynningu Símans vegna þriðja ársfjórðungs sagði að tekjur fyrirtækisins af  Premium sjónvarpsþjónustu hefðu vaxið um 330 milljónir króna milli ára, eða um 30 prósent. Heimilispökkum hefði sömuleiðis fjölgað um 5.100 á sama tímabili. 

Alls jukust tekjur Símans vegna sjón­varps­þjón­ustu um 19,6 pró­sent á þriðja ársfjórð­ungnum einum saman miðað við sama tíma­bil í fyrra, eða um 233 millj­ónir króna. Þær voru í heild 1.423 millj­ónir króna á árs­fjórð­ungn­um. 

Í fjár­festa­kynn­ingu kom fram að tekju­á­hrif af enska bolt­anum hefðu verið umfram vænt­ing­ar, að við­skipta­vinum sem keyptu Premium áskrift hefði fjölgað um þrjú þús­und frá því að Sím­inn Sport fór í loftið og að aug­lýs­inga­tekjur hefðu vaxið um 54 pró­sent á þriðja árs­fjórð­ungi og ell­efu pró­sent milli ára. 

Bilið í fjölmiðlatekjum minnkar verulega

Hjá Sýn var sagan önn­ur. Þar lækk­uðu tekjur vegna fjöl­miðla­rekstur um 144 millj­ónir króna miðað við þriðja árs­fjórð­ung í fyrra, eða um sjö pró­sent. Sam­tals námu tekjur Sýnar vegna fjöl­miðla 1.946 millj­ónir króna og engin ein tekju­stoð félags­ins dróst meira saman í krónum talið en fjöl­miðla­rekst­ur­inn. Hann nær til ann­arra fjöl­miðla sam­stæð­unnar en bara sjón­varps­stöðva. Miðlar Sýnar eru ­Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgj­una, FM957 og Xið 977. Félagið er því líka með umtals­verðar tekjur af útvarps­rekstri og rekstri frétta­mið­ils­ins Vís­is.

Á þriðja árs­fjórð­ungi 2018 höfðu tekjur Sýnar vegna fjöl­miðla verið 76 pró­sent hærri en tekjur Sím­ans vegna þeirrar tekju­stoð­ar. Í ár voru fjöl­miðla­tekjur Sýnar 37 pró­sent hærri en helsta keppi­naut­ar­ins. Bilið á milli þeirra minnk­aði 377 millj­ónir króna. 

Hagn­aður Sím­ans var 2,3 millj­arðar króna á fyrstu níu mán­uðum þessa árs á meðan að hagn­aður Sýnar var 384 millj­ónir króna á sama tíma, en hann kemur til vegna þess að bók­færður var sölu­hagn­aður upp á 817 millj­ónir króna vegna sam­runa dótt­ur­fé­lags í Fær­eyj­um. Án þessa bók­­færða sölu­hagnað vegna þeirrar sölu væri tap Sýnar á fyrstu níu mán­uðum árs­ins 433 millj­­ónir króna. 

Athugasemd frá Símanum bætt við klukkan 14:01:

„Í hádeginu í dag birtist á Kjarnanum fréttaskýring um málefni stafræns sjónvarps og internets á Íslandi. Því ber að fagna að Kjarninn gefi þessum mikilvægu þjónustuþáttum gaum og reyni að útskýra þessar margþættu atvinnugreinar á mannamáli. Síminn telur að nokkur atriði þurfi að koma fram til viðbótar til að varpa skýru ljósi á málaflokkinn:

  • Neytendur þurfa ekki að kaupa internet þjónustu af Símanum til að kaupa sjónvarpsþjónustu af Símanum. Ekki þarf að kaupa internet tengingu af Símanum til að leigja IPTV myndlykill Símans. Þá nýtir þjónustan Sjónvarp Símans óháð neti hið opna internet, hvar sem í verður komist, jafnvel yfir farsímakerfi. Sjónvarpsþjónustan hjá Símanum og sjónvarpsefnið sem Síminn selur áskrift að eru því með öllu ótengd því að keypt sé tengiþjónusta eða nokkur önnur þjónusta af Símanum.
  • Síminn hefur áfrýjað úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um að Síminn hafi í fortíðinni vöndlað saman mismunandi þjónustuþáttum í trássi við fjölmiðlalög. Jafnvel þótt Símann og PFS greini á um þennan þátt – og dómstólar muni skera úr um þennan ágreininginn – hefur PFS tekið fram að hið meinta reglubrot sé ekki lengur viðhaft.
  • Síminn hefur óskað eftir því að fyrirtæki, sem samkvæmt Samkeppniseftirlitinu er markaðsráðandi í sjónvarpsdreifingu á Íslandi, þ.e. Sýn, selji Símanum dreifingu á vörunni Sjónvarpi Símans Premium. Síminn reynir þannig að nýta alla innviði og öll dreifikerfi til að ná til neytenda. Sýn hefur því miður hafnað því að selja Símanum dreifiþjónustu fyrir Sjónvarp Símans Premium og hefur Síminn kvartað yfir þeirri ólöglegu sölusynjun til Samkeppniseftirlitsins.
  • Síminn rekur hina opnu sjónvarpsstöð Sjónvarp Símans sem fjármagnar rekstur sinn með sölu auglýsinga. Sú starfsemi á í harðri samkeppni, ekki síst við íslenska ríkið, þ.e. Ríkisútvarpið. Síminn telur að Ríkisútvarpið hafi rangt við í fyrirkomulagi auglýsingasölu sinnar og hefur Ríkisendurskoðandi staðfest það. Síminn kaupir dreifiþjónustu af öllum sem hana selja til að dreifa Sjónvarpi Símans sem víðast. Nær allt það efni sem Síminn selur áskrift að með ólínulegum hætti í Sjónvarpi Símans Premium kemur fyrr eða síðar í opinni línulegri dagskrá (sem og með tímaflakki) á sjónvarpsstöðinni Sjónvarpi Símans.
  • Símasamstæðan á í harðri samkeppni við fleiri opinbera aðila á Íslandi en Ríkisútvarpið og Síminn telur ljóst að víðar sé ójafnt gefið. Borgarfyrirtækið Gagnaveita Reykjavíkur (GR) hefur fjárfest fyrir tugi milljarða í fjarskiptakerfi á suðvestur horni landsins. Eftirlitsstofnun EFTA hefur hafið rannsókn á starfsemi GR vegna gruns um ólögmæta opinbera aðstoð. GR fjármagnaði starfsemi sína framan af með lánum og hlutafjárframlögum frá Orkuveitu Reykjavíkur (OR), en hefur undanfarin ár fengið á annan tug milljarða að láni frá Landsbankanum. Bankinn setur lánveitingum sínum það skilyrði að OR sé meirihlutaeigandi GR, ella geti bankinn gjaldfellt öll lánin. PFS hefur úrskurðað að þessi skilyrði fyrir lánveitingum til GR séu ólögleg og standist ekki skilyrði um meintan fjárhagslegan aðskilnað OR og GR.
  • Síminn hefur árum saman óskað eftir því að fá að leigja fjarskiptalagnir af GR, eins og félagið gerir í tilfelli annarra netlagnafyrirtækja á Íslandi. GR hefur hafnað því, eitt félaga á Íslandi, og selur eingöngu lokaða heildstæða fjarskiptaþjónustu með virkum búnaði í stað þess að opna á óvirka innviði eins og aðrir gera. Þetta hefur valdið því að offjárfest er í innviðum á suðvestur horni landsins, og liggja milljarðar óvirkra og ónotaðra innviða í jörðu hér. Á móti er hægar fjárfest víða úti um landsbyggðina en þörf er fyrir.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar