Mynd: Pexels

Síminn að festa sig aftur í sessi sem sá stærsti á markaðnum

Gagnamagnsnotkun Íslendinga á farsímaneti heldur áfram að aukast ár frá ári. Hún hefur 265faldast á áratug. Síminn hefur styrkt stöðu sína sem markaðsleiðandi á farsímamarkaði en tekjur vegna sölu á slíkri þjónustu hafa dregist verulega saman.

Síminn jók forskot sitt á farsímamarkaði á fyrri hluta ársins 2019. Markaðshlutdeild félagsins jókst úr 34,5 prósent um síðustu áramót í 36,9 prósent um mitt þetta ár. Alls hefur Síminn bætt við sig 8.331 viðskiptavinum frá júnílokum 2018 og fram að sama tíma á þessu ári. Alls voru 173.428 manns í viðskiptum við fyrirtækið um mitt ár 2019. 

Á sama tímabili hafa bæði Nova og Vodafone, sem tilheyrir Sýn, tapað viðskiptavinum og þar með markaðshlutdeild. Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn. 

Nova er nú með 160.286 viðskiptavini sem er 5.764 færri en um mitt ár í fyrra og markaðshlutdeild fyrirtækisins er nú 32,1 prósent. Nova var um nokkurra ára skeið stærsti leikandinn á íslenskum fjárskiptamarkaði eftir að hafa náð þeirri stöðu á árinu 2015. Síminn, sem hafði verið leiðandi á markaðnum frá því að hann varð til, og var til að mynda með 56,6 prósent markaðshlutdeild árið 2008, náði toppsætinu á ný á síðasta ári. Um tíma, á árinu 2017, náðu bæði Nova og Vodafone að verða stærri en Síminn á þessum markaði. Sá tími virðist liðinn. 

Vodafone er nú með 130.119 viðskiptavini og 27,8 prósent markaðshlutdeild. Viðskiptavinum fyrirtækisins fækkaði um 2.941 frá júnílokum í fyrra og fram á mitt ár 2019. 

265faldast á áratug

Nú eru 78,4 prósent allra virkra símakorta á farsímaneti 4G kort. Um mitt ár 2014 voru 14,8 prósent allra símakorta þannig, en 4G-væðingin hófst af alvöru á Íslandi á því ári. 4G tengingar innan farsímanetsins fela í sér tíu sinnum meiri hraða en 3G tengingar gera. Þær eru auk þess um þrisvar sinnum hraðari en hröðustu ADSL-tengingar. 

Notkun á gagnamagni hefur margfaldast samhliða þessari þróun. Nú þykir enda ekkert tiltökumál að horfa til að mynda á bíómyndir eða þætti í símanum sínum í gegnum farsímanetið, en hér áður fyrr, þegar gagnaflutningur var mun hægari, var slíkt ómögulegt og gat auk þess verið fokdýrt. Þá má ekki vanmeta þátt almennrar internetnotkunar, hlaðvarpa, notkunar á samfélagsmiðlum á borð við Facebook, Twitter og Instagram og streymisveitna á borð við Spotify í aukningu á notkun á gagnamagni. 

Á fyrri hluta árs 2009 notuðu íslenskir farsímanotendur 90 þúsund gígabæti af gagnamagni. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 notuðu þeir 23,8 milljónir gígabæti. Á þessum áratug hefur aukningin því 265faldast. 

Þessi aukning er enn að eiga sér stað. Frá júnílokum 2018 og fram á mitt ár 2019 jókst gagnamagnsnotkun á Íslandi um 50 prósent. Vert er að taka fram að mikil aukning á fjölda ferðamanna, sem hefur farið úr um hálfri milljón á ári árið 2010 í um 2,3 milljónir í fyrra, spilar líka rullu í hinni miklu aukningu á notkun gagnamagns, enda flestir þeirra með farsíma sem þeir nota á ferðalögum sínum til Íslands. 

Búast má við því að aukningin muni halda áfram með innleiðingu 5G, en Nova tók í febrúar á þessu ári í notkun fyrsta slíka sendinn á landinu. Enn skortir á að flesti símtæki geti borið slík kort en 5G býður upp á tíu sinnum hraðari nethraða en 4G. Áætlanir gera ráð fyrir að innleiðing 5G muni hefjast að fullri alvöru á komandi ári, 2020. 

Nova með yfirburði í notkun á gagnamagni

Nova hefur alltaf haft mikið forskot þegar kemur að notkun viðskiptavina fjarskiptafyrirtækjanna á gagnamagni. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 notuðu þeir sem keyptu farsímaþjónustu af Nova til að mynda 74 prósent af öllu gagnamagni. Það þarf þó að taka fram að þar er um að ræða þá notkun sem fer fram í gegnum farsímanetið, ekki þá sem nýtt er með tengingu við beini (WiFi), en margir farsímar tengjast slíkum beini heima hjá notanda og/eða á vinnustað hans. Síminn er það fyrirtæki sem er með flesta viðskiptavini þegar kemur að hefðbundnum internettengingum.

Þótt dregið hafi úr yfirburðum Nova þá eru þeir enn umtalsverðir. Fyrirtækið var með 60,4 prósent markaðshlutdeild þegar kom að gagnamagnsnotkun á farsímaneti á fyrstu sex mánuðumyfirstandandi árs og bætti við hlutdeild sína frá sama tímabili í fyrra. Síminn kemur þar á eftir með 24,6 prósent hlutdeild en Vodafone rekur lestina hjá þremur stóru fjarskiptafyrirtækjunum með 12,7 prósent markaðshlutdeild. 

Aðrir minni leikendur eru svo með 2,3 prósent hlutdeild.

Erfiður markaður og tekjusamdráttur

Meðalverð á einstaklingsmarkaði fyrir fjarskiptaþjónustu hefur verið að lækka skarpt á undanförnum árum, þótt að það hafi þokast lítillega upp á síðari hluta þessa árs. Fyrirtækjamarkaðurinn er þó ekkert mikið skárri og Orri Hauks­son, for­stjóri Sím­ans, sagði þegar uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung fyrirtækisins var birt í lok október að enn sjái ekki fyrir endann á verð­þrýst­ingi á honum. Til marks um þetta má benda á að tekjur Sím­ans af far­síma- og tal­síma­þjón­ustu dróg­ust saman á þriðja árs­fjórð­ungi miðað við sama tíma­bil í fyrra. Raunar er annað hvort sam­dráttur eða stöðnun í þróun tekna á nán­ast öllum tekju­sviðum sam­stæð­unnar nema einni: í sjón­varps­rekstri. Um hann verður fjallað í fréttaskýringu sem birtist á Kjarnanum á morgun, sunnudag. 

Tekjur Vodafone vegna farsímaþjónustu drógust líka saman á fyrstu níu mánuðum þessa árs, eða alls um eitt prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Tekjur vegna fastlínu drógust saman um 18 prósent milli ára. Nova er ekki skráð á markað og birtir þar af leiðandi ekki ársfjórðungsleg uppgjör. Því er ekki hægt að sjá hvernig tekjur þess fyrirtækis af farsímaþjónustu hafa þróast það sem af er ári. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar