Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að árás sem hann fyrirskipaði á einn æðsta hershöfðinga Írans, Qasem Soleimani, sem leiddi til dauða hans, hefði verið gerð til að koma í veg fyrir stríð og frekari átök.
Þjóðaröryggisráð Írans hefur brugðist við árásinni og hótaði Bandaríkjamönnum fyrr í kvöld grimmilegum hefndum fyrir hershöfðingjann.
Um var að ræða drónaárás í Baghdad, höfuðborg Írak, þar sem hershöfðinginn var staddur.
Nú þegar hefur spennan í samskiptum Bandaríkjanna og Íran - og Ísrael og Íran - aukist til muna, og greinir New York Times frá því í dag, þingmenn bæði Demókrata og Repúblikana, heimti frekari upplýsingar og hvað hafi leitt til þess árásin var gerð, en Trump gaf fyrirskipun um árásina, sem æðsti maður Bandaríkjahers.
Við erum hættulega nálægt 1914 mómenti. Íran mun svara og BNA munu bregðast við því. Spurningin er hvar, hvernig og hversu lengi: Munu viðkvæm framfaraskref Íraks þurrkast út? Brothætt vopnahlé í Yemen verða að engu? Er hafin atburðarás sem engin hefur í raun stjórn á?
— Asdis Olafsdottir (@asdisolafs) January 3, 2020
Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að senda liðsauka til Miðausturlanda, vegna vaxandi spennu, og þá hafa stjórnvöld fjölmargra ríkja varað borgara sína við því að ferðast um Írak og Íran sérstaklega, vegna vaxandi ólgu og andúðar, einkum á Bandaríkjunum.
Um 3.500 bandarískir hermenn verða sendir til herstöðva í miðausturlöndum. Þeir eru til viðbótar nokkur hundruð hermönnum sem bættust þarna við fyrr í vikunni eftir árás á bandaríska sendiráðið í Bagdad í Írak.
Titringur var á mörkuðum í dag, vegna þessarar spennu sem nú er orðin veruleg, en olía hækkaði skarpt eftir árásina, og hlutabréf víða féllu í verði.