Hlutur Helga Magnússonar fjárfestis í eiganda Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins og tengdra miðla, hefur minnkað úr 100 prósent niður í 82 prósent.
Aðrir eigendur eiganda útgáfufélagsins, félagsins HFB-77 ehf., eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, með tíu prósent hlut, Jón G. Þórisson, annar ritstjóri Fréttablaðsins, með fimm prósent hlut, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi.
Þetta kemur fram í uppfærðum upplýsingum um eignarhald Torgs á vef Fjölmiðlanefndar.
Tilkynnt hafði verið um að Sigurður, Jón og Guðmundur myndu koma inn í hluthafahóp Torgs 18. október síðastliðinn, samhliða því að greint var frá því að Helgi hefði eignast allt hlutafé í Torgi og að til stæði að renna Hringbraut inn í útgáfufélagið. Við sama tilefni var tilkynnt að Jón hefði verið ráðinn annar ritstjóri Fréttablaðsins við hlið Davíðs Stefánssonar.
Hafa keypt upp aðra fjölmiðla
Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna Hringbrautar og Fréttablaðsins í lok október þar sem Hringbraut þurfti á auknum fjármunum að halda til að styrkja rekstur sinn, annars myndi fjölmiðillinn ekki geta starfað áfram. Í kjölfarið var starfsemi Hringbrautar flutt í höfuðstöðvar Fréttablaðsins á Hafnartorgi.
Á fimmtudagskvöldið 13. desember greindi Kjarninn frá því að Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, væri að kaupa DV og tengda miðla af Frjálsri fjölmiðlun. Útgáfufélögin staðfestu svo kaupin daginn eftir. Ástæðan fyrir kaupunum var sögð vera erfitt rekstrarumhverfi, en Frjáls fjölmiðlun hefur verið rekin með miklu lausu tapi frá því að félagið var stofnað til að kaupa DV og tengdra miðla árið 2017. Á fyrstu 16 mánuðunum tilveru sinnar tapaði fjölmiðlasamsteypan 283,6 milljónum króna. Ekki liggur enn fyrir hversu mikið tapið verður á þessu ári en skráður eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar, lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson, sagði við RÚV í desember „reksturinn er mjög erfiður[...]þetta er búið að vera rekið með tapi frá árinu 2017.“
Með kaupunum á DV og tengdum miðlum er Torg orðið að einu stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins.