Chris Porch hefur verið ráðinn tímabundinn forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Tempo, félags sem er í 45 prósent eigu Origu. Hann tekur við starfinu af Gary Jackson sem hefur látið af störfum.
Jackson var ráðinn forstjóri Tempo í apríl 2019 og gengdi því starfinu í einungis níu mánuði. Í tilkynningu til Kauphallar vegna forstjóraskiptanna er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Origo, að breytingarnar á foryst Tempo séu „liður í að stilla betur saman áherslur stjórnar og stjórnenda og byggja um leið sterkt leiðtogateymi til framtíðar. Rekstur Tempo gekk vel á síðasta ári, tekjuvöxtur og afkoma voru umfram væntingar og horfur eru mjög góðar.”
Porch, hinn nýi tímabundni forstjóri, hefur samkvæmt tilkynningu áratugareynslu af rekstri hugbúnaðarfyrirtækja, sem stofnandi, stjórnandi og stjórnarformaður. Hann hefur að undanförnu starfað sem stjórnendatengiliður Diversis Capital hjá Tempo, þar sem hann hefur stutt við stjórnendateymið í stefnumótun og áætlunargerð.
Í tilkynningunni segir að nýr forstjóri Tempo verði ráðinn eins fljótt og auðið er en þangað til mun Porch vinna með stjórnunarteymi Tempo að vexti fyrirtækisins.