Verð á tunnunni af hráolíu féll um 4,34 prósent í Bandaríkjunum í dag, eftir að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hafi ávarpað þjóðina, og talað fyrir því að spennan í deilu Írans og Bandaríkjanna færi nú minnkandi.
Íran skaut flugskeytum að tveimur herstöðvum Bandaríkjanna í Írak í gær, en enginn lét lífið. Trump sagðist vilja forðast stríð, en Bandaríkjaher væri alltaf undirbúinn fyrir átök, og myndi verja landið og hagsmuni þess, ef þess væri þörf.
Hann sagði enn fremur að ógnarstjórnin í Íran, hefði ekki lengur þá stöðu að geta ógnað umheiminum.
Þrátt fyrir yfirlýsingu Trumps, þá eru deilur í Bandaríkjaþingi vegna stefnu Trumps - og þá einkum skorti á upplýsingum um stefnu hans gagnvart Íran - viðvarandi. Bæði þingmenn Demókrata og Repúblikana hafa gagnrýnt Trump og þjóðaröryggisráðgjafa hans fyrir skort á samráði.
Republican senator Mike Lee blasts the Trump administrations post-Iran briefing, says they were told they could not dissent from Trump, couldn't debate it, and if Trump needed justification to go to war "I'm sure we could think of something" pic.twitter.com/bfyPqoSf8c
— Andrew Lawrence (@ndrew_lawrence) January 8, 2020
Olíuverð hækkaði skarpt þegar spenna fór vaxandi í deilu Bandaríkjanna og Íran. Um 40 prósent af olíu sem flutt er með skipum á markað fer um Persaflóa, en það er um 20 prósent af allri olíuframleiðslu heimsins. Átök í ríkjunum í grennd - Írak og Íran - hafa af þessum sökum yfirleitt mikil áhrif á þróun olíuverðs.