Michelle Roosevelt Edwards, einnig þekkt sem Michelle Bellerin, segir í stöðuuppfærslu á Linkedin að WOW air muni takast á loft á ný innan fárra vikna. „Sýn okkar er einföld, við viljum að að flugferðir verði skemmtilegar aftur. Okkur hlakkar til að kynna lykilþætti í að ná því markmiði og að innleiða þá frá fyrsta flugi okkar.“
Í stöðuuppfærslunni segir enn fremur að WOW air muni tengja lönd og heimsálfur.
Félag sem Edwards veitir forstöðu, USAaerospace Associates LLC, keypti valdar eignir út úr þrotabúi WOW air í fyrra. Á meðal þeirra eigna voru vörumerkið.
Edwards hélt blaðamannafund á Grillinu á Hótel Sögu 6. september 2019 og sagði þar að WOW air myndi hefja lágfargjaldaflugrekstur til Bandaríkjanna og Evrópu í október. Enn hefur engin ferð verið flogin.
Áætlanir nýrra eigenda að WOW air vörumerkinu gerðu ráð fyrir vaxandi umsvifum þegar líður á komandi vetur og aukin áhersla verður lögð á þátt vöruflutninga í starfsemi fyrirtækisins.
Samhliða því að áform um endurreisn WOW air voru kynnt á ofangreindum blaðamannafundi var send út fréttatilkynning þar sem fram kom að endurvakinn flugrekstur WOW air ætti eftir að skipta almenning á Íslandi og í Bandaríkjunum miklu máli og að hann myndi efla bæði menningarleg og viðskiptaleg tengs milli Reykjavíkur og Washington. „Við hyggjumst auka umsvifin í farþegafluginu með fleiri flugvélum áður en sumarið heilsar okkur. Frá fyrsta degi í vöruflutningunum, sem einnig munu hefjast á næstu vikum, munum við leggja mikinn metnað í vandaða þjónustu á sviði vöruflutninga með ferskt íslenskt sjávarfang á Bandaríkjamarkað.“
Greint var frá því að í stjórnendateymi WOW air yrðu meðal annars Charles Celli, rekstrarstjóri hjá USAerospace. Hann starfaði meðal annars í stjórnunarstöðu hjá Boeing áður fyrr en WOW air notaðist einvörðungu við Airbus vélar á þeim tíma sem Skúli Mogensen átti og rak félagið.
Hérlendis hafa fulltrúar kaupenda verið almannatengillinn Gunnar Steinn Pálsson og lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson.