70-75 þúsund skammtar af bóluefni gegn inflúensu voru fluttir til landsins í haust og voru ekki lengi að fara í sprautur og svo um æðar jafnmargra landsmanna. „Það fer allt einn, tveir og þrír,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Við hefðum örugglega getað notað fleiri skammta en við fengum bara ekki meira bóluefni.“
Það sem af er vetri hafa læknar greint um 280 sjúklinga með inflúensulík einkenni. Það er á pari við síðustu ár. Læknar senda svo sýni frá einstaka sjúklingum til greiningar og hafa tæplega 90 tilfelli inflúensu verið staðfest.
Heilbrigðir taka bóluefni frá viðkvæmum
Að sögn Þórólfs lætur hærra hlutfall fólks á Íslandi bólusetja sig gegn flensu en gengur og gerist í mörgum öðrum löndum. Ekki hafi því allir fengið bólusetningu sem vildu. „En við erum ekkert að mæla með því að allir séu bólusettir. Við mælum með því að þeir sem eru í áhættuhópum og gætu farið illa út úr inflúensunni láti bólusetja sig. Við erum ekkert að hvetja til þess að heilu vinnustaðirnir geri það.“
En það er engu að síður þróunin. Margir vinnustaðir bjóða starfsmönnum sínum slíkar bólusetningar á hverju ári. „Já, og þeir taka nú örugglega dágóðan hluta af þessum sjötíu þúsund skömmtum, þó að við vitum ekki nákvæmlega hversu hátt hlutfall það er.“
Margir heilbrigðir einstaklingar láta bólusetja sig og taka þar með jafnvel bóluefni frá hinum sem mest þurfa á því að halda. Þórólfur segir nú í skoðun hvernig tryggja megi að bóluefnið fari til áhættuhópanna. „Það er ekki alveg auðvelt en við erum að reyna að finna leiðir til þess.“
Getur valdið alvarlegum veikindum og dauða
Á hverju ári deyja sjúklingar hér á landi og um heim allan vegna inflúensunnar eða fylgikvilla hennar. Nokkuð margir hópar fólks eru viðkvæmari en aðrir fyrir að fá alvarlega sýkingu. Landlæknir mælir með bólusetningu hjá öllum eldri en 60 ára og börnum og fullorðnum sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi veikindum.
Þórólfur segir inflúensuna nú ekki ætla að verða alvarlegri eða haga sér með öðrum hætti en flensur síðustu ára. Það fer eftir því hvaða tegund af henni er að ganga hversu alvarlegum veikindum hún veldur. „Það eina sem við getum fylgst með til að meta hvort að hún er sérlega alvarleg eru innlagnir á Landspítalann. Það sem af er vetri eru tölurnar ekkert mikið öðruvísi en í fyrra. Þannig að það er ekki hægt að segja að flensan nú sé miklu skæðari en þá.“
En af hverju byrjar hún alltaf á svipuðum tíma, fyrst hjá fáum einstaklingum og svo af fullum krafti nokkrum vikum síðar?
Þróun bóluefnis happadrætti
„Ef ég vissi það fengi ég sennilega Nóbelsprísinn,“ segir Þórólfur. Vitað er hvernig flensan hagar sér yfirleitt en ekki af hverju. „Þetta er einn af þessum leyndardómum veirunnar.“
Þróun bóluefnis er því nokkuð happadrætti. Sérfræðingar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, hefjast handa í upphafi hvers árs við að reyna að spá fyrir um hvers konar inflúensa muni ganga á því næsta. Að því mati loknu gefa þeir framleiðendum bóluefna fyrirmæli um hvers konar bóluefni skuli framleiða. „Stundum passar það og stundum ekki,“ segir Þórólfur um mat sérfræðinganna. „Hún breytir sér alltaf svolítið og maður veit aldrei fyrirfram hvað hún muni gera.“
Enn er ekki ljóst hvort að bóluefni þessarar flensutíðar reynist góð vörn. Það skýrist þegar lengra líður á faraldurinn og jafnvel ekki fyrr en hann er genginn yfir. „Flensutíðin er rétt að byrja,“ segir Þórólfur. Að venju mun hún líklegast ekki ná hámarki fyrr en í áttundu viku ársins eða í lok febrúar.