Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri Fótbolti.net, segir að hart sé sótt að íþróttaumfjöllun á Íslandi og margt sem bendi til þess að hún fari minnkandi á næstunni. Komandi fjölmiðlalög séu svo enn meiri ógn við umfjöllunina.
Þetta kemur fram í grein sem hann birtir á Fótbolti.net í dag.
„Þegar búið verður að samþykkja ný fjölmiðlalög Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra er ljóst að þau taka gildi frá 1. janúar 2019! Já þau virka ár aftur í tímann. Í frumvarpinu er klásúla sem útilokar möguleika Fótbolta.net á að sitja við sama borð og aðrir fjölmiðlar og við vitum núna að baráttan við að fá því breytt er töpuð,“ skrifar Hafliði.
Mælt var fyrir frumvarpinu þann 16. desember síðastliðinn. Í því felst að að endurgreiddur verður 18 prósent af kostnaði vegna ritstjórnar upp að 50 milljónum króna, en upphaflega hafði staðið til að hún yrði 25 prósent af kostnaði. Ástæða þess að hlutfallið var lækkað var andstaðan hluta þingmanna Sjálfstæðisflokksins við málið.
Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir sérstökum viðbótarstuðningi sem nemur allt að fjórum prósentum af þeim hluta af launum launamanna fjölmiðils sem falla undir lægra skattþrep tekjuskattsstofns. Kostnaðurinn við frumvarpið var takmarkaður við þær 400 milljónir króna sem þegar hefur verið tryggðar til málaflokksins á fjárlögum, sem samþykkt voru í desember 2019.
Miðillinn fær ekkert úr auglýsinga- og áskriftarpotti ríkisins
Hafliði bendir á að frá og með þeim tíma sem lögin taka gildi séu fimm atriði þar sem ríkið láti halla á Fótbolta.net í samkeppni við aðra fjölmiðla. Í fyrsta lagi að ríkið endurgreiði samkeppnisaðilum þeirra ákveðinn hluta af kostnaði við vinnslu frétta en þeim ekkert. Í öðru lagi reki ríkið stóran fjölmiðil, RÚV, í samkeppni við Fótbolta.net um auglýsingatekjur. RÚV taki 2,2 milljarða á ári af auglýsingamarkaðnum. Í þriðja lagi rukki ríkið íslenska fjölmiðla um skatta en Facebook og Google sem taka æ meiri hlut af íslenska auglýsingamarkaðnum starfi skattlaust á Íslandi. „Gleymum ekki að Amazon innheimtir gjöld fyrir íslenska ríkið svo það ætti að vera hægt að gera samskonar með Facebook og Google.“
Í fjórða lagi banni ríkið íslenskum fjölmiðlum að auglýsa veðmálastarfsemi og áfengi. Samt séu veðmála- og og áfengisauglýsingar áberandi hér á landi, ýmist á erlendum vefmiðlum sem Íslendingar lesa, fótboltavöllum og búningum sem sjást í sjónvarpsútsendingum hér á landi sem og erlendum tímaritum. Í fimmta og síðasta lagi greiði ríkið stærstu fjölmiðlum í einkaeigu á Íslandi yfir 150 milljónir á ári fyrir auglýsingar og áskriftir. Fótbolti.net fái ekkert úr þeim potti.
Reksturinn í járnum
Þá segir Hafliði að margt bendi til minnkandi umfjöllunar annarra fjölmiðla um íþróttir. „Morgunblaðið sagði upp 60 prósent fastastarfsmanna á íþróttadeild og er ekki lengur að fylgja landsliðum okkar eftir í verkefnum erlendis. Auk þess hafa verið uppsagnir á öðrum fjölmiðlum og sameiningar að ganga í gegn,“ skrifar hann.
Í greininni kemur fram að á árinu 2019 hafi velta Fótbolta.net lækkað um rúm 20 prósent frá árinu 2018 og ljóst sé að reksturinn sé í járnum.
Þó ætli Fótbolti.net að koma standandi „út úr þessum ólgusjó og auka frekar í en að draga úr umfjöllun.“
Hafliði greinir frá því að frá og með deginum í dag muni Fótbolti.net óska eftir því við lesendur að taka þátt í áframhaldandi starfi miðilsins með mánaðarlegum styrktargreiðslum. „Ég vil biðja alla þá lesendur sem kunna að meta umfjöllun okkar að taka þátt. Með ykkar stuðningi mun umfjöllun okkar aukast enn frekar í stað þess að minnka,“ skrifar hann.