Samtals hefur 12.560 manns verið sagt upp í hópuppsögnum á 12 árum. Flestir misstu vinnuna á þriggja mánaða tímabili frá desember 2008 til febrúar 2009 og svo næstu 3 mánuði þar á eftir. Alls voru þeir sem sagt var upp í hópuppsögnum á árinu 2019 1.046 talsins og hafa ekki verið fleiri síðan 2009 en þá var fjöldi þeirra sem sagt var upp í hópuppsögn 1.780.
Frá þessu er greint á vef Vinnumálastofnunar.
Vinnumálastofnun barst 21 tilkynning um hópuppsögn á árinu 2019, þar sem 1.046 manns var sagt upp störfum. Engar tilkynningar um hópuppsagnir bárust stofnuninni í desember síðastliðnum.
Samkvæmt stofnuninni misstu flestir vinnuna í flutningum, eða 540 manns sem gera tæp 52 prósent allra hópuppsagna. Í öðru lagi missti fólk vinnuna í byggingariðnaði, eða um 10 prósent og í þriðja lagi í fjármála– og vátryggingarstarfsemi eða tæp 10 prósent.
Um 53 prósent tilkynntra hópuppsagna á árinu 2019 voru á höfuðborgarsvæðinu, um 37 prósent á Suðurnesjum, um 4 prósent á Vesturlandi, um 3,5 prósent á Suðurlandi og um 2,4 prósent á Norðurlandi eystra, segir á vef Vinnumálastofnunar.
Flestum sagt upp í mars
Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir í samtali við Kjarnann að hópuppsögnum hafi farið fjölgandi undanfarin ár.
„Það voru um 700 til 800 sem skráðu sig hjá okkur eftir gjaldþrot WOW air,“ segir hann en þeim hefur fækkað smám saman sem eru á skrá síðustu mánuði.
Sex tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í mars á síðasta ári þar sem 473 starfsmönnum var sagt upp störfum.
Tvær uppsagnir voru í starfsemi tengdri flutningum og geymslu, þar sem 328 manns var sagt upp störfum, þar af 315 hjá Airport Association, en sumum þeirra sem sagt var upp þar hefur verið boðin endurráðning á öðrum kjörum. Þetta kom fram hjá Vinnumálastofnum í apríl síðastliðnum.
Hinar uppsagnirnar koma úr fjórum atvinnugreinum; 46 manns var sagt upp í ferðaþjónustu, 37 í framleiðslu, 32 í byggingastarfsemi og 30 í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi. Flestar hópuppsagnir bárust frá fyrirtækjum á Suðurnesjum eða 347 og 126 á höfuðborgarsvæðinu. Hópuppsagnirnar komu til framkvæmda á tímabilinu maí til júlí á síðasta ári. Uppsagnir hjá Wow air og aðrar uppsagnir vegna gjaldþrota eru ekki taldar með í þessum hópuppsögnum, samkvæmt Vinnumálastofnun.
Karl segir að ef ekki hefði verið þessi hópuppsögn hjá Airport Association þá hefðu hópuppsagnir á síðasta ári verið á pari við árið áður – og jafnvel færri.
Vona að botninum verði náð í vetur
Aðspurður hvernig þau hjá Vinnumálastofnun sjái komandi ár fyrir sér þá segir Karl að það sé erfitt að spá fyrir um hópuppsagnir. Þó telur hann að almennt séð muni atvinnuástand versna umfram árstíðasveiflur á næstunni. Það eigi sérstaklega við ef snarpur samdráttur verði í ferðaþjónustu þar sem mikið yrði um hagræðingaraðgerðir.
„Við vonumst hins vegar til þess að botninum verði náð að liðnum vetri,“ segir hann og bætir því við að þau hjá Vinnumálastofnun hafi vitneskju um að stór fyrirtæki í fluggeiranum, á borð við Icelandair og Airport Association, muni halda áfram að ráða fólk. Þá fari þetta allt eftir eftirspurninni eftir ferðamönnum.
Gjaldþrot ekki með í hópuppsögnum
Alls var 111 fastráðnum starfsmönnum WOW air sagt upp störfum í desember árið 2018 og náðu uppsagnir starfsmanna þvert á fyrirtækið. Þá hafði Vinnumálastofnun ekki fengið jafn fjölmennar hópuppsagnir síðan 2009 þegar um 600 manns var sagt upp í tveimur hópuppsögnum hjá Ístaki hf.
WOW air varð síðan gjaldþrota þann 28. mars á síðasta ári og þá misstu 1.100 starfsmenn flugfélagsins störf sín. Það er þó ekki inn í tölum Vinnumálastofnunar þar sem gjaldþrot eru ekki talin með í hópuppsögnum, að sögn Karls.
Þrot WOW air skilur eftir milljarðakostnað
Stór liður sem hefur áhrif á ríkisrekstur um þessar mundir er einmitt aukin kostnaður vegna hærra atvinnuleysis og greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa, aðallega vegna gjaldþrots WOW air sem hefur aukið verulega kostnað vegna beggja liða. Atvinnuleysi stefnir í að verða 3,5 prósent í ár, en var 2,4 prósent að meðaltali í fyrra.
Í frumvarpi til fjáraukalaga sem samþykkt var í desember síðastliðnum var lagt til að fjárheimild til málaflokksins yrði aukin um 7,6 milljarða króna. Af þeirri upphæð var gert ráð fyrir að tæplega 6,3 milljarðar króna færi í að mæta auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs á síðasta ári. Þá var farið fram á að tæplega 1,3 milljarðar króna færu til Ábyrgðarsjóðs launa til að mæta auknum útgreiðslum vegna gjaldþrota fyrirtækja á árinu.