„Stjórn VR lét því gera viðhorfskönnun almennings á því hvort óstofnað stjórnmálaafl verkalýðshreyfingarinnar nyti brautargengis í næsti Alþingiskosningum. Niðurstaðan var athyglisverð og ánægjuleg því 23% svarenda höfðu hug á að kjósa slíkan flokk verði hann stofnaður. Það þýðir að um væri að ræða stærsta stjórnmálaflokkinn miðað við síðustu kannanir og mögulega ráðandi afl eftir næstu kosningar.“
Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins, í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar segir hann að þetta hljóti að teljast vera stórfréttir og að sama skapi áfellisdómur yfir núverandi flokkakerfi. Samkvæmt könnuninni, sem MMR gerði fyrir VR, taki hið óstofnaða framboð fylgi af öllum flokkum sem í dag eru starfandi.
Vakti hörð viðbrögð
Um miðjan nóvember viðraði Ragnar Þór þá hugmynd í pistli að kjósendur myndu fá raunverulegan valkost sem snúi að „raunverulegum breytingum á kerfi sem mergsýgur samfélagið að utan sem innan. Valkost sem refsar þeim sem allt vilja fá og ekkert gefa í staðinn. Valkost sem raunverulega er til höfuðs þeim sem neyta að taka þátt í samfélagssáttmálanum. Sáttmála um að allir hjálpist að við að baka brauðið og þeir veikustu fái að borða fyrst.“
Í pistlinum sagði Ragnar enn fremur að valkosturinn gæti orðið sá að verkalýðshreyfingin færi af stað með þverpólitískt framboð um þessar breytingar.
Hugmyndin vakti hörð viðbrögð víða, sérstaklega úr atvinnulífinu og innan stjórnmálanna, og fékk litlar undirtektir hjá öðrum forystumönnum innan verkalýðshreyfingarinnar.
Segist vera á „háréttri leið“
Ragnar Þór segir í stöðuuppfærslunni í dag að athyglin sem hugmyndin hafi verið svo mikil að „varðhundar núverandi kerfis reyndu að halda því fram að það stangaðist á við lög að hreyfingin hefði skoðanir á því eða vildi hafa bein áhrif á hvernig landinu okkar er stjórnað. Þó byggðist hugmyndin eingöngu á því að hreyfingin bjóði fram með stuttan verkefnalista sem kjósendur gætu valið um.
Verkefnalista sem væri ekki útþynntur með bitlingum á háborði stjórnarráðsins heldur væri framboðið nauðvörn gegn þeirri stöðu sem uppi er í íslenskum stjórnmálum. Framboðið væri tilraun í eitt kjörtímabil. Sterk viðbrögð sérhagsmunaafla er mælikvarði á það hvort við erum á réttri leið eða ekki. Mín tilfinning var sú að með þessari hugmynd vorum við á hárréttri leið.“
Stjórn VR hafi því látið MMR gera viðhorfskönnun almennings á því hvort óstofnað stjórnmálaafl verkalýðshreyfingarinnar nyti brautargengis í næstu Alþingiskosningum. Niðurstaðan hafi verið, líkt og áður sagði, að 23 prósent svarenda hefðu hug á að kjósa þverpólitískt framboð verkalýðshreyfingarinnar.
Ég er þeirrar skoðunar að finnast ólíklegt að þeir flokkar sem bjóða fram til Alþingis nái að brúa það vantraust sem...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Friday, January 10, 2020