Lífeyrissjóðir landsins lánuðu alls 12,6 milljarða króna til sjóðsfélaga sinna í ný útlán í nóvember 2019. Það er það næst mesta sem þeir hafa nokkru sinni lánað í einum mánuði í sjóðsfélagalán, sem eru að uppistöðu til húsnæðiskaupa. Metið var sett í mánuðinum á undan, október 2019, þegar 13,9 milljarðar króna fóru úr sjóðum lífeyrissjóða í ný útlán til sjóðsfélaga.
Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um stöðu lífeyrissjóða landsins, sem birtar voru í gær.
Alls lánuðu lífeyrissjóðirnir 92,4 milljarða króna í sjóðsfélagalán á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs. Mest hafa þeir lánað 99,2 milljarða króna á einu ári, en það gerðist árið 2017. Allt bendir til þess að 100 milljarða króna útlánamúrinn hafi verið rofinn í fyrra og að það ár verði þar með metár.
Reynt að halda aftur að útlánaaukningu
Það er athyglisvert af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að það hægði verulega á hækkun húsnæðisverðs í fyrra, en vísitala kaupverðs alls íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,2 prósent á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2019. Til samanburðar hækkaði húsnæðiverðið um 13,6 prósent á árinu 2017 og 5,8 prósent á árinu 2018.
Í þriðja lagi hafa stærstu lífeyrissjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi allir reynt að draga úr eftirspurn eftir sjóðsfélagalánum hjá sér með því að þrengja lánaskilyrði og hækka vexti hjá sér.
Lántakendur leita aftur í verðtryggt
Í október 2019 gerðist það í þriðja sinn í sögu íslenska lífeyrissjóðakerfisins að sjóðsfélagar tóku meira að láni óverðtryggt en verðtryggt. Í hin tvö skiptin, í desember 2018 og í janúar 2019, hafði verðbólga hækkað nokkuð skarpt og var á bilinu 3,4 til 3,7 prósent, eftir að hafa verið að mestu undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í febrúar 2014. Í október var hún hins vegar 2,8 prósent og spár gerðu ráð fyrir að verðbólgan myndi fara við og jafnvel undir 2,5 prósent verðbólgumarkmið í nánustu framtíð. Það gerðist síðan, líkt og áður sagði, í desember þegar skörp lækkun skilaði verðbólgunni niður í tvö prósent.
Þessar væntingar skiluðu því að algjör viðsnúningur varð í lántökum sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna á ný. Alls voru 65 prósent nýrra útlána í nóvember 2019 verðtryggð.